Stýrivextir á Íslandi er þeir hæstu í okkar heimshluta. Til að finna hærri vexti þurfum við að fara austur til Ungverjalands (13%), suður til Sierra Leone (18,25%) eða vestur til Mexíkó (11,25%). Ísland er í flokki með flestum löndum Suður-Ameríku, nokkrum löndum í Afríku og fyrrum lýðveldum Sovétríkjanna. Annars staðar eru lægri vextir en á Íslandi og víðast miklum mun lægri.
Hæstu stýrivextir í heimi eru í Zimbabwe, 150%. Þar er verðbólgan yfr 86% og stýrivextirnir því í reynd jákvæðir til að vinna gegn hruni gjaldmiðilsins. Lægstu stýrivextirnir eru í Japan, -0,1%. Þar er 3,5% verðbólga, svo stýrivextirnir eru neikvæðir.
Vextirnir eru hæstir í ríkjum sem eru á barmi gjaldþrots vegna skulda og verðbólgu eða innri átaka. Vextir eru almennt háir í veikari nýmarkaðsríkjunum, þeim sem skulda mikið. Þau glíma við hækkandi vexti á lánum í erlendri mynt og fall eigin gjaldmiðla, sem aftur skrúfar upp verð á innflutningi og þar með verðbólguna. En þetta dugar ekki endilega til. Í Argentínu þar sem stýrivextir eru 81% er nú 109% verðbólga og pesóinn í frjálsu falli.
Skráð verðbólga er hæst í Venesúela, um 440%. Þar á eftir koma Líbanon með 270% og Sýrland með 140%. Og svo Argentína með sín 109%. Í Evrópu er mest verðbólga í Tyrklandi. Hún mælist nú um 40% og hefur helmingast á stuttum tíma þótt stýrivextirnir hafi alltaf verið mjög neikvæðir. Stýrivextir í Tyrklandi eru nú lægri en á Íslandi, þótt verðbólgan sé þar fjórföld á við Ísland.
Minnsta skráða verðbólgan er í Suður-Súdan þar sem er verðhjöðnun, mögulega sem afleiðing borgarstyrjaldar. Næst kemur Kína með 0,1% verðbólgu og svo ýmiss miklu smærri ríki: Burkina Faso, Brúnei og Barein.
Á Íslandi er 9,6% verðbólga og stýrivextir upp á 8,75%. Til samanburðar er 10,5% verðbólga í Svíþjóð en 3,5% stýrivextir, 9,9% verðbólga í Chile en 11,25% verðbólga og 9,3% verðbólga í Bangladess en 6,0% stýrivextir. Það er því ekkert lögmál hægt að lesa út úr þessu, stjórnvöld í hverju landi sjóða saman sína stefnu gagnvart verðbólgu, lífskjarakrísunni og vaxandi vaxtakostnaði ríkissjóðs.
Kortið sýnir svipmynd af stýrivöxtum seðlabanka víða um heim. Rauðasti liturinn er fyrir Ísland og lönd sem eru með viðlíka háa eða hærri vexti. Liturinn mildast svo eftir því sem vextir lækka.