„Nú kemur í ljós að allt var þetta málamyndagjörningur, blekkingum var beitt í því skyni fyrir tiltekna aðila að hagnast á því þegar almannaeigur voru seldar.“ Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður VG, árið 2017. Katrín er einn af þeim stjórnmálamönnum þar sem auðvelt er finna eldri tilvitnun í hana þar sem hún virðist fordæma gjörðir Katrínar í dag. Hjörtur Hjartarson vekur á Facebook athygli að enn einu dæmi um slíkt.
Hann skrifar: „Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðkomu Hauck & Aufhäuser að einkavæðingu bankanna fyrir Hrun var birt 2017. Formaður Vg, Katrín Jakobsdóttir, kvaddi sér hljóðs af því tilefni á Alþingi. Þetta var 30. mars 2017.“
Því næst vitnar hann í ræðu Katrínar, en hún hljóðar svo:
„[…] Nú kemur í ljós að allt var þetta málamyndagjörningur, blekkingum var beitt í því skyni fyrir tiltekna aðila að hagnast á því þegar almannaeigur voru seldar.
Það eru staðreyndir málsins sem fyrir okkur liggja, herra forseti. Þessi skýrsla kallar annars vegar á að rannsókn á öllu einkavæðingarferlinu verði lokið, eins og við ræddum í óundirbúnum fyrirspurnartíma áðan, en hún kallar líka á það að við skoðum mjög vel hvernig við ætlum að byggja hér upp fjármálakerfi til framtíðar, því að fjármálakerfið er órjúfanlegur hluti þessa samfélags. Við getum ekki boðið upp á það, Alþingi Íslendinga, að samfélagið verði áfram gegnsýrt af tortryggni og grunsemdum gagnvart því kerfi sem á í raun að vera þjónustuaðili fyrir almenning og atvinnulíf í landinu. Það gengur ekki. Þannig verður það hins vegar ef við ljúkum þessum málum ekki með eðlilegri rannsókn [… .]
Þetta er verkefnið, að gera upp þessa fortíð, loka þessum málum með einhverjum hætti og sýna þannig að samfélagið geti haldið áfram og skilið við þessi mál, að við ætlum ekki að láta þetta gerast aftur.
Þess vegna er það ekki í boði að ráðist verði í frekari einkavæðingu á bankakerfinu fyrr en þessari rannsókn hefur verið lokið og við erum fullviss um að lög og regluverk, eftirlitsstofnanir og stjórnvöld geti staðið vaktina þegar kemur að því að ákveða framtíð fjármálakerfisins. Þetta er verkefnið sem fyrir okkur liggur. Annað er ekki boðlegt fyrir íslenskt samfélag.“
Hjörtur bætir svo við að lokum: „Að forsætisráðherra skuli reyna að koma í veg fyrir að Alþingi rannsaki hina subbulegu Íslandsbankasölu er svo ósvífið að engu tali tekur.“