Kolefnisspor okkar stærra en margra samanburðarþjóða

Umhverfismál 8. jún 2023

Ný þekking sem verður til innan Háskóla Íslands hefur margþætt gildi. Rannsóknir geta nefnilega leitt til uppgötvana sem bæta lífsgæði okkar allra en ekki síður er þekkingin vopn til að takast á við fjölþættar áskoranir eins og ógn við lífríki og heilsu fólks, örar tæknibreytingar og miklar sviptingar í umhverfi okkar.

Umhverfisbreytingar eru af mörgum taldar eitt helsta viðfangsefni mannkyns á næstu áratugum. Vísindamenn hafa ítrekað bent á að afleiðingar þeirra geti umbylt lífsskilyrðum á jörðinni til hins verra þannig að samfélög raskist með gríðarlega alvarlegum áhrifum. 

Í nýrri stefnu Háskóla Íslands, HÍ26, er áhersla á umhverfismál og samstillt átak til að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna á breiðum grunni. Í stefnunni er fjallað um kolefnisfótspor en það er notað sem mælikvarði til að meta árangur af markmiðum á sviði sjálfbærni í starfi skólans, ekki síst á sviði samgangna.

En hvað er þetta kolefnisspor sem er svo víða í deiglunni? Kolefnisspor er nokkurs konar líking sem endurspeglar áhrif einhvers, t.d. einstaklings, framleiðslu eða neyslu á tiltekinni afurð á loftslag jarðar á heilu ári. Kolefnissporið endurspeglar þannig heildarlosun gróðurhúsalofttegunda sem einhver tiltekinn þáttur veldur á ársgrundvelli, á líkan hátt og við látum eftir okkur fótspor í jarðvegi. 

Kortleggur kolefnisspor Íslendinga

Þórhallur Ingi Halldórsson, prófessor í næringarfræði við HÍ, vinnur nú að því að kortleggja kolefnisspor mataræðis Íslendinga og greina hvaða þættir vega þar þyngst. „Við erum að greina hvernig við getum tekið sjálfbærni betur inn í ráðleggingar um mataræði,“ segir Þórhallur Ingi. „Í dag eru slíkar ráðleggingar nær eingöngu settar fram á grundvelli heilsu en ekki sjálfbærni.”  

Þarna birtist annað mikilvægt höfuðhugtak rannsóknarinnar, sjálfbærni sem er afar víðfeðmt. Sjálfbærni snertir ekki bara umhverfið heldur líka félagslegt réttlæti, heilsu og velferð, menningu og efnahag. Að baki því býr vitneskja um þær takmarkanir sem náttúran setur okkur mönnum. Við  getum ekki tekið meira af auðlindum náttúrunnar en henni er mögulegt að endurnýja að fullu. Með þessu er sú hugmyndafræði uppi að skila jörðinni betur frá kynslóðinni sem nú lifir en tekið var við henni. 

Þórhallur segir að samtímis þessu séu hann og vísindateymið að kortleggja kolefnisfótspor innlendrar matvælaframleiðslu til að sjá hvað megi betur fara í framleiðslunni með hliðsjón af losun gróðurhúsaloftegunda og annara þátta. „Matvælaframleiðsla er einn stærsti og áhrifamesti þáttur okkar tíma þegar kemur að losun gróðurhúsaloftegunda bæði beint og óbeint,“ segir Þórhallur og færir í tal ruðning skóga og eyðingu lands í þágu landbúnaðar og matvælaframleiðu. 

„Það hefur lengi legið fyrir að sjálfbærni þarf að vega þyngra í hvernig við framleiðum og neytum matar. Það er mikið um þetta rætt en lítið gert. Við sem komum að þessu verkefni töldum okkur geta aflað gagna sem skipt gætu skipt máli, bæði hvað varðar umræðu og stefnumótun en einnig þróun aðferðafræði á þessu sviði. Við skoðum líka viðhorf neytenda og hagfræðileg áhrif þess að færa framleiðslu og neyslu í átt að meiri sjálfbærni.“

Unnið fyrir alþjóðastofnanir eins og WHO og EFSA

Undanfarin sex ár hefur Þórhallur Ingi unnið af kappi fyrir alþjóðastofnanir eins og Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO) að málum á sviði matvælaöryggis auk þess að sinna alls kyns ráðgjöf og rannsóknum fyrir ýmsar innlendar og erlendar stofnanir. Í rannsóknum sínum hefur Þórhallur lagt æ meiri þunga á aðkomu ólíkra fræðigreina að einu og sama verkefninu. Hann telur enda að þverfagleg samvinna sé lykillinn að árangri í rannsóknum þegar horft er til fjölbreyttra þátta eins og teknir eru fyrir í nýjustu rannsóknum hans um sjálfbærni og kolefnisspor. Þar er ekki mögulegt að leysa verkefnin út frá einni fræðigrein eða viðhorfum hennar. Þetta er mjög í takti við nýja stefnu HÍ þar sem áherslan er að vinna þvert á svið og ryðja burt hindrunum úr vegi samstarfs ólíkra fræðigreina.

„Það sem skiptir svo miklu máli í þessari rannsókn er að þau sem stýra þessu með mér eru með mun meiri þekkingu en ég á fjölmörgum sviðum sem snerta verkefnið, s.s. sjálfbærni, næringu, matvælaframleiðslu og á ýmsum þáttum félagsvísinda og hagfræði.“

„Það hefur lengi legið fyrir að sjálfbærni þarf að vega þyngra í hvernig við framleiðum og neytum matar. Það er mikið um þetta rætt en lítið gert. Við sem komum að þessu verkefni töldum okkur geta aflað gagna sem skipt gætu skipt máli, bæði hvað varðar umræðu og stefnumótun en einnig þróun aðferðafræði á þessu sviði. Við skoðum líka viðhorf neytenda og hagfræðileg áhrif þess að færa framleiðslu og neyslu í átt að meiri sjálfbærni,“ segir Þórhallur Ingi Halldórsson, prófessor í næringarfræði.

Þórhallur Ingi Halldórsson, prófessor í næringarfræði.

Vilja gera umræðu réttari og markvissari 

Þegar vikið er að kveikjunni að rannsókninni segir Þórhallur Ingi að skýrir mælikvarðar hafi ekki verið til staðar né opinberar tölur eða beinharðar staðreyndir um stöðu þessara mála hérlendis. Þegar staðreyndir eru á reiki er auðveldara að setja fram fullyrðingar sem eiga sér hvergi stoð og því er þessi rannsókn mjög mikilvægt vopn í að eyða falsfréttum og draga úr upplýsingaóreiðu á þessu sviði. Þar er rannsóknin heldur betur í anda nýrrar stefnu skólans þar sem því er lýst beinum orðum að HÍ eigi að berjast gegn áhrifum falsfrétta og leggja fram rannsóknir, gögn og sérfræðiþekkingu til að styðja opinbera stefnumörkun og stuðla að lýðræðislegri umræðu. Þessi rannsókn Þórhalls Inga leggur þunga á þetta allt. 

„Umræða hér innanlands er oft drifin áfram af skoðunum og hagsmunum, sem oft vill verða þegar áreiðanleg gögn skortir. Við vildum bara setja slíkri umræðu afmarkaðri skorður sem byggjast á staðreyndum, ekki tilfinningum,“ segir Þórhallur Ingi. 

Kjötneysla mikil á Íslandi

Og svo er það auðvitað stóra spurningin? Hvert er kolefnissporið – erum við Íslendingar á svipuðu róli og aðrar þjóðir, eða stöndum við okkur betur í ljósi notkunar á endurnýjanlegum orkugjöfum?
 
„Við erum búin að reikna kolefnisfótspor mataræðis Íslendinga út frá Landskönnun á mataræði árið 2020,“ segir Þórhallur Ingi. „Þetta höfum við gert með því að styðjast við þrjá erlenda gagnagrunna um kolefnisfótspor matvæla ásamt því að skoða þau takmörkuðu gögn sem liggja fyrir innanlands. Í stuttu máli sjáum við að kolefnisfótspor Íslendinga, eins og það birtist í nýjustu Landskönnun, er hærra en það sem birt hefur verið í ritrýndum tímaritum fyrir margar aðrar þjóðir. Skýrist það að mestu af kjötneyslu en Íslendingar borða mikið kjöt og þá oft á kostnað afurða úr jurtaríkinu.“ 

Þórhallur segir að í heildina megi segja að mataræði Íslendinga sé almennt hvorki hollt né sjálfbært. 

Niðurstöður má nýta til stefnumótunar og breyttrar hegðunar

Niðurstöður úr rannsókninni hafa hvorki verið ritrýndar enn sem komið er né birtar en vísindafólkið er að draga saman gögnin og vinnur við skriftir. „Við munum birta tölur byggðar á nýlegum gögnum sem kortleggja hvar við stöndum. Við vonumst til að þær niðurstöður nýtist við umræðu og stefnumótun um sjálfbærni hérlendis. Þær ættu að nýtast bæði neytendum og framleiðendum við að taka ákvarðanir um hvar skuli forgangsraða og bregðast við, hafi fólk á annað borð áhuga að taka skrefið í átt að meiri sjálfbærni í framleiðslu og neyslu,“ segir Þórhallur Ingi.  

„Varðandi framlag til vísindanna og rannsókna á þessu sviði þá munum við geta lagt eitthvað til málanna þegar kemur að þróun og samstöðu um hentugustu aðferðafræðina þegar bera á saman tölur milli landa og tölur fengnar frá mismunandi framleiðslukerfum.“

Rannsókn Þórhalls Inga og félaga hefur bein og eindregin tengsl við nær öll heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Heimsmarkmiðin eru á þremur stoðum sjálfbærrar þróunar: efnahagslegri, félagslegri og umhverfislegri. Þau fela líka í sér fimm leiðarljós sem eru mannkynið, jörðin, hagsæld, friður og samstarf.

„Maður veit fyrst að rannsókn lokinni hvort hún skipti máli. Þá er fyrst er hægt að mæla áhrif hennar. Það felst ekki eingöngu í einhverjum fínum birtingum eða fjölmiðlaumfjöllun heldur meira hvernig rannsóknin nýtist öðrum rannsakendum og hvaða áhrif hún hefur á stefnumótun og samfélagið, einstaklingana. Við ætlum okkur hóflega stóra hluti á báðum sviðum.“

Frétt af vef Háskóla Íslands.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí