Samstöðin hóf útsendingar að nýju á mánudaginn eftir innbrot, þjófnað og skemmdarverk. Á þessari viku hafa verið sendir út nokkrir þættir: Rauða borðið, Miðnætti í Kænugarði, Sannar Sögur, Fótboltasögu fyrir svefninn, Rauður raunveruleiki, Sósíalískir feministar og Vikuskammtur. Og í morgun var sent út Helgi-spjall við Steindór J. Erlingsson.
Útsent efni í þessari fyrstu viku eftir endurreisn er um 16 klukkustundir af samfélagsumræðu. Til samanburðar er samfélagsumræðan á Bylgjunni, í Bítinu, Reykjavík síðdegis og Sprengisandi, tæplega 14 tímar á viku þegar tónlist og auglýsingar hafa verið dregnar frá. Samfélagsumræða er nokkru minni á Rás 2 Ríkisútvarpsins en hins vegar meiri á Rás 1. En sáralítil í Ríkissjónvarpinu, þar er varla meira sem flokka má sem samfélagsumræða en 20 mínútur af Kastljósi frá mánudegi til föstudags.
Samstöðin er rekin fyrir áskriftir. Fólk greiðir frá 2.000 kr. á mánuði og fær í staðinn öflugustu samfélagsumræðuna í dag. Fólk borgar áskrift svo það geti notið efnisins en líka svo aðrir efnaminni geti notið þess sama. Virkni fjölmiðla verður meiri eftir því sem fleiri hlusta, sjá og lesa. Áskrifendur hafa sömu hagsmuni að þessu og þau sem búa til efnið eða þau sem mæta til viðtals.
Flestir áskrifendur Samstöðvarinnar kjósa að tilheyra Alþýðufélaginu, sem er eigandi Samstöðvarinnar. Þú getur gerst áskrifandi hér: Skráning áskriftar
Helgi-spjall á laugardögum: Persónulegt samtal
Í Helgi-spjalli við Rauða borðið sagði Steindór J. Erlingsson frá áratuga langri reynslu sinni af þunglyndi og sjálfsvígshugsunum, frá áföllum, sálarháska, raflostmeðferðum, lyfjum og annarri læknismeðferð sem hann hefur mátt þola. En líka frá sigrum, von og gjöfum lífsins. Þrátt fyrir erfið veikindi hefur Steindór verið ötull baráttumaður fyrir réttindum og mannvirðingu.
Vikuskammtur á föstudögum: Yfirferð yfir fréttir vikunnar
Í Vikuskammti við Rauða borðið er farið yfir fréttir vikunnar í spjalli sem á kaffihúsi eða vinnuskúr. Í þessari viku sátu Elín Oddný Sigurðardóttir verkafnastýra, Elísabet Guðrúnar og Jónsdóttir tölvukona, Atli Þór Fanndal framkvæmdastjóri og Ísak Jónsson verkamaður við borðið og ræddu fréttir viku sem einkenndist af átökum, stríði, verðbólgu og versnandi kjörum.
Sósíalískir feministar á fimmtdögum: Samfélagið frá sjónarhóli feminisma og sósíalisma
Þátturinn er í umsjón Söru Stef Hildardóttur og Maríu Pétursdóttur. Þar ræða þær við fólk um málefni líðandi stundar í ljósi feminískrar baráttu en feminísk barátta er í grunninn barátta allra undirskipaðra hópa sem reyna að lifa af í kapítalísku feðraveldi fyrr og nú. Á fimmtudaginn ræddu þær við safnverðina Rakel Adolfsdóttur og Halldóru Kristinsdóttur um kvennasögu.
Rauður raunveruleiki á fimmtudögum: Ungt og róttækt sjónarhorn.
Rauður raunveruleiki snéri aftur í vikunni, þáttur með ungum sósíalistum. Í þætti vikunnar skoðuðu þau Karl Héðinn Kristjánsson, Oliver Axfjörð Sveinsson, Kristbjörg Eva Andersen Ramos og Trausti Breiðfjörð Magnússon myndbandasafn Hönnu Láru Einarsdóttur með skotum úr fjölmiðlum frá hrunsárunum og eftir þau. Hverjir voru panamaprinsarnir? Hvað gerði Davíð Oddsson? Hvar er nýja stjórnarskráin okkar? Hvað þýðir það að stjórnmálamenn taki ábyrgð og hvar eru allir kommúnistarnir sem Jón Gunnarsson vælir yfir?
Fótboltasögur fyrir svefninn á miðvikudögum
Í Fótboltasögum fyrir svefninn segir Stefán Pálsson sögur af fótbolta og pólitík með aðstoð Ólafs Bjarna Hákonarsonar. Þetta eru ekki lýsingar af leikjum heldur saga af mönnum, liðum og löndum og hvernig fótboltinn, en þó ekki síður pólitíkin, óf þráðinn. Í fyrsta þætti fóru þeir yfir sögu Sókratesar, brasilísku knattspyrnugoðsagnarinnar sem var ekki aðeins frábær í fótbolta og mikill leiðtogi inn á vellinum heldur hugsuður og leiðtogi utan vallar.
Sannar sögur við Rauða borðið á þriðjudögum
Sannar sögur við Rauða borðið er þáttur þar sem við rifjum upp sögubrot og reynum að læra af sögunni. Í vikunni kom Rósa Magnúsdóttir prófessor og sagði okkur frá poppurum sem fóru gegnum járntjaldið, annars vegar ferð Hljómsveitar Björgvins Halldórssonar til Sovétríkjana og Strax til Kína. Og Björgvin sagði frá sinni ferð og Jakob Frímann Magnúss frá sinni. Það var því sagnfræðingur og sögupersónur hans við Rauða borðið að segja sannar sögur. í lok þáttarinn kom Ása Ester Sigurðardóttir sagnfræðingur og sagði frá komu pillunnar til landsins og þeim áhrifum sem hún hafði á samfélagið og hugmyndir fólks.
Miðnætti í Kænugarði á mánudögum
Miðnætti i Kænugarði sneri aftur á Samstöðina, en þátturinn var á dagskrá öll virk kvöld fyrstu vikurnar eftir innrás rússneska hersins í Úkraínu í febrúar í fyrra. Nú verður Miðnætti í Kænugarði vikulegur þáttur þar sem Tjörvi Schiöth fer yfir stöðuna á vígvellinum og fjallað er um ýmsa anga af þessu hræðilega stríði. Gestur þáttarins á mánudaginn var Hilmar Þór Hilmarsson prófessor sem ræddi lokun sendiráðs Íslands í Moskvu og stefnu íslenskra stjórnvalda en þó mest um efnahagslega stöðu Úkraínu og getu landsins til að rétta sig við.
Rauða borðið: Samfélagsumræða frá mánudags- til fimmtudagskvölds.
Við Rauða borðið fer Gunnar Smári Egilsson yfir fréttir dagsins en ræðir síðan við gesti og gangandi um fréttir og samfélagsmál. Rauða borðið sneri aftur á mánudagskvöldið eftir hlé vegna innbrots og þjófnaðar á tækjum Samstöðvarinnar.
Eftir stutt fréttayfirlit kom að Rauða borðinu þau Sonju Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB, Magnús Þór Jónsson formaður Kennarasambandsins og Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR og ræddu kjaramál, nýgerða samninga og þá sem fram undan eru. Hvað vill launafólk? Og hvernig ætla félögin að sækja það sem fólkið vill? Hafrannsóknarstofnun hefur birt veiðiráðgjöf sína, svo til óbreyttan afla frá fyrra ári. Jón Kristjánsson fiskifræðingur kom að Rauða borðinu og gagnrýnir þessa ráðgjöf, en einkum þann grunn sem hún byggir á. Hann heldur því fram að við gætum veitt tvöfalt meira.
Við fórum yfir fréttir þriðjudagsins og fengum síðan Kristinn Hrafnsson ritstjóra Wikileaks til að skýra stöðuna í máli Julian Assange sem setið hefur í fangelsi árum saman og verður nú líklega framseldur frá Bretlandi til Bandaríkjanna. Við ræddum mál Assange við þá Ögmund Jónasson fyrrum þingmann og formann BSRB. Þorstein Siglaugsson hagfræðing og formann Málfrelsis, og Aðalstein Kjartansson blaðamann og varaformann Blaðamannafélagsins. Síðan kom Bára Halldórsdóttir í heimsókn og við ræddum við hana um Klausturmálið af gefnu tilefni.
Eftir fréttir miðvikudagsins kom Þorgerður J. Einarsdóttir prófessor að Rauða borðinu og fjallaði um kynseigin veruleika í skautuðu samfélagi, sagði okkur frá baráttu og sigrum en líka viðhorfum almennings. Og spáði í hvers vegna mál tengd kynseginleika eru svona eldfim í skautuðu samfélagi. Þá kom Árni Daníel Júlíusson sagnfræðingur að borðinu og sagði okkur frá forræðiskreppunni í Evrópu eftir fyrra stríð og átökunum sem henni fylgdu. Og spáði í líkindi þess tíma við okkar tíma.
Eftir fréttir fimmtudagsins heyrðum við í Helen Ólafsdóttur öryggisráðgjafa hjá Sameinuðu Þjóðunum um afleiðingar af vopnvæðingu lögreglunnar. Og ræddum þetta mál á eftir við þau Margréti Valdimarsdóttur afbrotafræðing og Fjölnir Sæmundsson formann Lögreglufélagsins. Breyta vopn eðli löggæslu og sjálfsmynd lögregluþjóna? Victoria Bakshina fékk ríkisborgararétti á Íslandi um daginn og vegabréf á fimmtudaginn. Við ræddum við þennan splunkunýjan Íslending. Í lok þáttarins kom Arngrímur Vídalín bókmenntafræðingur og sagði okkur frá útlendingaandúð sem nær langt aftur fyrir nýlendutímann.