Á föstudaginn voru fjörutíu ár liðin frá því Jeremy Corbyn var kjörinn á þing fyrir Verkamannaflokkinn, einum og hálfum mánuði eftir að Steingrímur J. Sigfússon var kjörinn á þing á Íslandi. Steingrímur hætti á þingi fyrir tveimur árum en Corbyn situr enn á þingi, nú utan flokka. Keir Starmer, arftaki Corbyn sem formaður Verkamannaflokksins, hefur rekið Corbyn úr þingflokknum.
Og þessi sérstaka staða sem kom til tals í viðtali Gary Younge, fyrrum ritstjóra The Guardian, við Corbyn í tilefni af þessum tímamótum. Þeir fara yfir þessi fjörutíu ár, byrja á að velta fyrir sér hvað sé líkt með ástandinu nú og fyrir fjörutíu árum þegar verkföll geisuðu í Bretlandi sem nú. Corbyn segir frá stöðu sinni í flokknum á Blair-tímanum, þegar flokkurinn færðist hratt til hægri.
Corbyn lýsir líka stöðu sinni sem formanns. Hann fékk góða kosningu, ekki bara einu sinni heldur tvisvar, en var alla tíð með þingflokkinn og helstu stofnanir flokksins á móti sér. Samt var ljóst að stefnubreyting hans naut mikils fylgis meðal almennings. Og þegar andstæðingar hans náðu aftur völdum í flokknum létu þeir hné fylgja kviði og hrökktu margt af stuðningsfólki Corbyn úr flokknum og hann sjálfan úr þingflokknum. Og hann fjallar um ásakanir hægri manna í flokknum um að hann væri haldinn gyðingaandúð og hefði ýtt undir hana innan flokksins.
En er hann að hætta í stjórnmálum, nú þegar ljóst er að hann mun ekki bjóða sig fram undir merkjum Verkamannaflokksins. Nei, segir Corbyn og segist verða þátttakandi í næstu kosningum. Hann fullyrðir ekki að hann muni bjóða sig fram sem óháður, en hann hefur traust fylgi í kjördæmi sínu Norður Islington í London búinn að vera þingmaður kjördæmisins í fjörutíu ár.
Heyra má og sjá þetta áhugaverða viðtal hér: