Rjóminn flæðir á skammtímaleigumarkaði í Reykjavík

Alls þénuðu AirBnB hrókarnir í Reykjavík tíu milljarða í fyrra þegar þeim tókst að selja rúmlega átta hundruð þúsund gistinætur á Reykvískum heimilum. Útleigustarfssemi á þessum markaði reynast hin feitustu júgur því alls höfðu tíu umsvifamestu hrókarnir að meðaltali hundrað milljón krónur í árstekjur af starfsseminni.

Alls voru tvö þúsund og fimm hundruð heimili í Reykjavík á skammtímaleigumarkaði í fyrra sem er þrisvar sinnum meira en ársframleiðslan á íbúðum. Heimilin á skammtímaleigumarkaði í borginni virðast hafa fordæmalaust aðdráttarafl því meðaldvalartími gesta var heilar tíu nætur. Á sama tíma er nýtingahlutfallið komið tæp áttatíu prósent og hefur aldrei verið jafn hátt.

Þetta kemur fram í tölum ferðamálastofu á Mælaborði ferðaþjónustunnar. Þessar tölur eru hinsvegar einungis tölur yfir það sem er kallað “heil heimili” í Reykjavík, því að auki voru fimm hundruð stök herbergi skráð í skammtímaleigu yfir sumartímann í fyrra. Á fyrstu tveimur mánuðum ársins hefur fjöldi íbúða í skammtímaleigu jafnframt aukist gríðarlega, eða á milli 90-100% frá sama tíam og í fyrra. Nýjustu tölur á mælaborði ferðaþjónustunnar eru frá því í mars, en miðað við aukninguna má gera ráð fyrir að heimilin séu orðin að lágmarki þrjú þúsund um þessar mundir. Mesti skráði fjöldi heimila í Reykjavík er frá árinu 2018, eða þrjú þúsund og fimm hundruð.

Gera má ráð fyrir að þrír ferðamenn séu að jafnaði um hverja bókun, miðað við stærð íbúðanna. Í fyrra var fjöldi bókana alls áttatíu og þrjú þúsund. Það þýðir að um það bil tvö hundruð og fimmtíu þúsund ferðamenn hafi gist á skammtímaleigumarkaði í Reykjavík árið 2022. Meðal-eyðsla hvers ferðamanns samkvæmt ferðamálastofu var rétt tæpar 150.000 krónur. Það þýðir að um fjörutíu milljarðar hafa komið inn í hagkerfið í gegnum reykvískan skammtímaleigumarkað, fyrir utan tekjur AirBnB hrókanna sjálfra.

Reykvískur skammtímaleigumarkaður er því sannkölluð mjólkurkú fyrir sveitarfélagið. Það er því kannski ekki að furða tregðu borgaryfirvalda til að takmarka útleigu heimila í gegnum skammtímaleigumarkað, þrátt fyrir mesta húsnæðisskort í borginni frá upphafi. Bæði skapar þetta ferðaþjónustunni í borginni miklar tekjur og setur ekki síður mikinn þrýsting á húsnæðismarkað með tilheyrandi hækkunum sem skilar sér í auknum tekjum í borgarsjóð og samþjöppun í eignarhaldi. Engin merki eru um að borgaryfirvöld vilji breyta því.

Það eru því glæstir tímar framundan hjá AirBnB hrókunum í Reykjavík sem svolgra sem aldrei fyrr. Þeir sitja svo gott sem einir að þessum júgrum.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí