Samherji segir upp helmingi alls verkafólks á Hólmavík

Öllu starfsfólk Hólmadrangs á Hólmavík var tilkynnt fyrir helgi um fyrirhugaða lokun hjá fyrirtækinu og að öllum starfsmönnum verði sagt upp störfum frá og með 30. júní nk. Um er að ræða 21 starfsmann í heildina.

Burðarliður í atvinnulífi Hólmvíkinga í  58 ár

„Nú lýkur 58 ára sögu rækjuvinnslu Hólmadrangs, en fyrirtækið hefur verið mikil stoð í atvinnulífi Hólmvíkinga þrátt fyrir að gengið hafi með skini og skúrum,“ skrifar Bergvin Eyþórsson, varaformaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga á vef félagsins. „Í október 2018 var Hólmadrangi veitt heimild til greiðslustöðvunar og síðar veitt heimild til nauðasamninga, en allt fór vel að lokum og hélt Hólmadrangur áfram vinnslu og starfsfólk hélt áfram að hafa atvinnu og nýr ráðandi hluthafi kom til sögunnar, Snæfell, dótturfélag Samherja. Því miður var það skammgóður vermir því nú hefur Hólmadrangur tilkynnt starfsfólki sínu um áformaða hópuppsögn og lokun fyrirtækisins eftir erfiðan rekstur undanfarinna ára.“

Hvers má vænta

Bergvin heldur áfram: „Boðað hefur verið til fundar þann 22. júní nk. þar sem verður yfirfarið hvort forsendur hafi breyst og skapað rými fyrir aðrar nálganir til að bregðast við vandanum auk þess sem áhersla verður lögð á samtal við starfsmenn. Þrátt fyrir að talað sé um sóknarfæri í fiskeldi og ferðamannaþjónustu er ekkert í hendi sem taki neitt við hjá því starfsfólki sem missir vinnuna um komandi mánaðamót. Ekki er hægt að vísa fólki til nágrannabyggðarlaga til vinnu þar sem vetrarþjónusta Vegagerðarinnar yfir Steingrímsfjarðarheiði og Þröskulda er naumt skömmtuð.“

Hvert er umfang þessa áfalls á Hólmavík

„Í Strandabyggð búa 436 manns samkvæmt upplýsingum Hagstofu, en samkvæmt gögnum Verk Vest sem er deildaskipt stéttarfélag eru aðeins að jafnaði 103 félagsmenn starfandi á Hólmavík og starfa að jafnaði 64 þeirra fyrir ríki og sveitarfélög,“ skrifar Bergvin. „Þetta skilur eftir að jafnaði 39 manns á vinnumarkaði sem er eru almennir launamenn á almennum vinnumarkaði sem spannar verkafólk, sjómenn, skrifstofu- og verslunarfólk, en af þessum fjölda starfa að jafnaði 19 hjá Hólmadrangi. Um næstu mánaðamót missir 48,72% þessa hóps vinnuna!“

Samanburður við önnur landsvæði

„Ekki varð nú meira upphlaup vegna þessa en svo að hvorki RÚV né Stöð 2 minntust á málið í kvöldfréttum í gærkvöld,“ undrar Bergvin sig á. „Erfitt er að bera það áfall sem nú dynur yfir Hólmvíkinga saman við önnur landsvæði þar sem tölurnar yrðu svo ótrúlegar að fólk á erfitt með að ímynda sér slíkt, en setjum þetta í samhengi við fólksfjölda. Á Hólmavík missa 21 vinnuna af 436 íbúum, eða 4,82%. Ef við heimfærum það upp á Reykjavíkurborg eina og sér jafngildir það því að 6.828 manns myndu missa vinnuna, og ef við heimfærum það upp á höfuðborgarsvæðið í heild jafngildir það því að 12.062 myndu missa vinnuna. Það má í það minnsta gefa sér að það hefði verið rætt í kvöldfréttum!“

Ekki sama hver er á í hlut

Við þetta má bæta að í kvöld verður fundur á Akranesi vegna frestunar hvalvertíðar, en það leiðir til þess að fólk missir vinnu sína. Sigurður Pétursson bendir á ólík viðbrögð við þessum fréttum.

„Ólík viðbrögð – ólík valdastaða: Hólmadrangur, í eigu Samherja, lokar rækjuvinnslunni, stærsta vinnustaðnum á Hólmavík. Stór hluti verkafólks á Hólmavík missir vinnuna. ,,Rækjuvinnslan Hólmadrangur er lykilvinnustaður Hólmavíkur og Strandabyggðar allrar. Lokun vinnslunnar er reiðarslag fyrir samfélagið,“ segja Strandamenn. Og Verkalýðsfélag Vestfirðinga samþykkir ályktun, sem útskýrir málið. Smáfrétt?“ spry Siguður á Facebook

„Ekkert kvótafyrirtæki á Hólmavík með ítök í stórum fjölmiðli, engin viðbrögð frá þingmönnum eða valdamönnum: Kvótafurstarnir ráða örlögum fólks og byggða,“ svarar hann sjálfur sér. Og heldur áfram: „Berum saman viðbrögðin við stöðvun hvalveiða á vegum Hvals hf., tímabundið úthald eins fyrirtækis á höfuðborgarsvæðinu: Ríkisstjórnin riðar til falls, segja menn, forsíða Morgunblaðsins, sem læddist innum lúguna í morgun, undirlögð, þingflokkur Sjalla fundar, formaður verkalýðsfélagsins boðar mótmælafund. Það er greinilega ekki sama hver á í hlut.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí