Sverrir Norland skáld segir í pistli sem hann birtir á Facebook að hann sé farinn að ganga í svörtum jakkafötum því samtíminn virðist vera samfelld útför gleðinnar. Sverrir er hugsi yfir því hvernig hver frétt á eftir annari virðist boða dauða menningar á Íslandi. Hann hvetur fólk til að berjast gegn þessari þróun, sú barátta þarf ekki að vera flóknari en að lesa bækur og hitta fólk.
Hér fyrir neðan má lesa pistil Sverris í heild sinni.
Nú er búið að selja húsnæðið undan Gaflaraleikhúsinu svo að stækka megi hótel.
Tjarnarbíó er líka komið á grafarbakkann þó að það hafi aldrei verið vinsælla.
Á sama tíma gefur Storytel út alþjóðlega yfirlýsingu um að gervigreind eigi að byrja að lesa bækurnar þeirra í stað leikara.
Ég er byrjaður að ganga í svörtum jakkafötum því að samtíminn virðist vera samfelld útför gleðinnar.
Hlutabréfin í einmanaleikanum styrkjast og ég átta mig ekki alveg á því á hvaða vegferð erum.
„Nútímamaðurinn býr ekki í menningu (kúltúr) heldur hagkerfi (economy),“ skrifaði einhver.
Um hvað dreymir fólk, hvað langar það að gera við framtíðina sem er dansgólf þar sem við ættum öll að hittast og hafa gaman frekar en að láta vél lesa fyrir okkur sögu skrifaða af vél á meðan við liggjum ein inni á hótelherbergi sem er eins í Reykjavík, San Fransisco og Abu Dhabi.
Ég segi: Lesið bækur (alvöru bækur), hittið fólk og spjallið við það, hrekkið umboðsmenn tómleikans og kveikið í tækniræðinu. Gerið þetta líf svolítið skemmtilegt. Það er manneskja við hliðina á þér einmitt núna, hún þráir menningu, tengingu, líf, ekki bara hótel og dautt menningarlíf og vél sem hvíslar út í eilífðina orð sem vélin skilur ekki einu sinni sjálf.