„Það sem hér er á ferðinni er að öfgafullur kommúnisti stjórnar matvælaráðuneytinu og virðist hata allt nema ríkisrekstur. Hún er greinilega að máta sig við nýja stjórnarhætti. Það er að mínu mati með ólíkindum að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn skuli hafa afhent henni matvælaráðuneytið,“ sagði Kristján Loftsson í viðtali við Morgunblaðið í dag.
Ólgan vegna ákvörðunar Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um að fresta hvalveiðum til haustsins heldur áfram að magnast. Í kvöld verður fundur í Gamla kaupfélaginu á Akranesi þar sem mótmæla á þessari ákvörðun. Vilhjálmur Borgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness hvetur alla til að mæta á fundinn því gríðarlegir hagsmunir séu í húfi fyrir Akurnesinga og nærsveitunga.
„Matvælaráðherra hefur tilkynnt komu sína á fundinn ásamt nokkrum þingmönnum úr kjördæminu en öllum þingmönnum kjördæmisins var boðið sérstaklega á fundinn sem og þingflokksformönnum allra stjórnmálaflokka á Alþingi,“ skrifar Vilhjálmur á Facebook.
Þingflokkur Sjálfstæðismanna kemur saman fyrir helgi til að ræða þetta mál.
Í Morgunblaði dagsins er ákvörðun Svandísar lýst sem mistökum í stríði við náttúverndarsamtök
„Ákvörðun Svandísar bar upp sama dag og friðunarseggurinn Paul Watson boðaði komu sína á Íslandsmið, en hann þakkar sér að sjálfsögðu það að ráðherrann hafi lúffað. Það er hneisa að íslenska ríkið virðist láta undan hótun löglausra aðgerðasinna.
Verra er að þar eru miklu meiri hagsmunir lagðir að veði. Ekki hvalveiðarnar, sem litlu skipta efnahagslega, þó skeytingarleysi ráðherrans um lífsviðurværi launafólks veki undrun, heldur réttur Íslendinga til hagnýtingar náttúruauðlinda landsins okkar og hafsins umhverfis það.
Nú þegar hafa alþjóðleg náttúruverndarsamtök gert athugasemdir við fiskveiðar almennt, þar á meðal við Ísland, þó allir þeir sem til þekkja viðurkenni að hvergi í heiminum séu fiskveiðar í hafinu stundaðar af meiri ábyrgð; án rányrkju og án ríkisstyrkja við sjávarútveg.
Falli stjórnvöld frá áður óumdeildum rétti Íslendinga til ábyrgrar auðlindanýtingar þarf enginn að efast um að skörin færist upp á bekkinn. Þeir hagsmunir geta ekki orðið meiri. Íslenskt samfélag er reist á rétti landsmanna til lífsviðurværis af gæðum lands og sjávar, en án hans er Íslandsbyggð úr sögunni,“ segir Mogginn og lætur sem fiskveiðar Íslendingar séu í hættu vegna ákvörðunar Svandísar.