Samstöðin spurði fólk um hvalveiðar í dag og ekki voru allir á sama máli. Sumir voru hæstánægðir með veiðarnar á meðan aðrir vilja að þeim sé hætt.
Sagðar hafa skilað miklu í þjóðarbúið
„Ég sé ekkert að þessum veiðum. Þetta eru mjög arðbærar veiðar, þær skila miklu til samfélagsins.“ sagði Guðmundur Bragason. „Bara hvalveiðin ein og sér borgar meira til samfélagsins en öll hvalskoðunarfyrirtækin til samans en þau eiga líka rétt á sér.“ Taka skal fram að enginn fótur hefur verið fyrir þessu undanfarinn áratug á Íslandi, samkvæmt greiningu Heimildarinnar.
„Þær eru búnar að vera lengi og verða væntanlega áfram bara, eins og þær hafa verið. Það er bara þurlað upp einhverju ósköp ryki um þetta allt saman en þær verða bara áfram. Vonandi.“ Sagði Einar Sigurðsson.
Vill að veiðum sé hætt
„Miðað við þessar myndir sem maður hefur séð, þegar það er verið að deyða þessi dýr. Það finnst mér ekki mannúðlegt og ég held við getum alveg verið án þess að veiða hval.“ sagði einn viðmælendanna. „Lögum hefur nú verið breytt fyrir minni mál en þetta“ bætti hann við. „Mér finnst að það eigi að vera hægt að gera reglugerð sem á að geta komið í veg fyrir og bannað hvalveiðar.“