Þáttum og útsendingum fjölgar á Samstöðinni

Fjölmiðlar 25. jún 2023

Í vikunni sem er að líða bættust við nýir þættir á Samstöðinni auk þess sem sendur var út fundur um Ísrael og skotið inn aukaútsendingum vegna uppreisnar í Rússlandi og flóttafjölskyldu í neyð. Alls var þessa vikuna send út samfélagsumræða í tæpa 21 klukkustund.

Nýi þátturinn þessa vikuna var Ungliðaspjallið í umsjón ungliða frá mismunandi félögum, flokkum og hreyfingum. Í þáttunum verður rætt er um málefni líðandi stundar út frá forsendum og sjónarhorni unga fólksins. Stjórnendur þáttarins eru Karl Héðinn Kristjánsson frá Ungum Sósíalistum, Jósúa Gabríel Davíðsson frá Ungum Vinstri Grænum, Þorvarður Bergmann Kjartansson frá ASÍ-Ung og Elísabet Guðrúnar og Jónsdóttir frá ungum Pírötum. Þau eru ekki formlegir fulltrúar sinna hreyfingar, mæta sem einstaklingar sem starfa á þessum vettvangi. Í fyrsta þætti ræddu þau um hvalveiðar, útlendingaandúð, samfélagsmiðlana, umhverfismálin og mikilvægi þess að virkja fólk til stjórnmála- og félagaþátttöku. Gestur þáttarins var Birgitta Jónsdóttir fyrrverandi þingkonu, ljóðskáld og aktívista í heimsókn.

Hér má sjá og heyra Ungliðaspjallið:

Útsendingar frá mikilvægum fundum

Það er stefna Samstöðvarinnar að senda beint út eða dreifa upptökum frá mikilvægum fundum. Einn slíkur var fundur sem haldinn var í Safnahúsinu á laugardaginn á vegum Ögmundar Jónassonar og félagsins Ísland Palestína: Ísrael – Palestína: Hver er framtíðin? Þar talaði ísraelska blaðamanninum og rithöfundinum Gideon Levy og reyndi að svara því hvað framtíðin bæri í skauti sér fyrir Palestínu og þá einnig Ísrael? Verður ekkert lát á ófriði og mannréttindabrotum?

Hér má sjá og heyra fundinn:

Tvær aukaútsendingar

Um helgina voru tvær aukaútsendingar. Á laugardagsmorgun var aukaþáttur af Miðnætti í Kænugarði vegna uppreisnar Wagnerliða undir stjórn Yevgeny Prigozhin. Gestur þáttarins var Albert Jónsson öryggismálarráðgjafi og fyrrum sendiherra í Washington og Moskvu. Albert spáði í spilin. Eru líkur á valdaskiptum í Rússlandi? Stefnubreytingu? Hvert þróast stríðið á vígvellinum og í heimsmálunum?

Seinna um daginn sendum við út viðtal við egypska fjölskyldu á flótta sem íslensk stjórnvöld vilja vísa úr landi. Á laugardaginn næsta eiga þau andmælarétt vegna stöðu sinnar hér á landi í leit að vernd. Yfirvöld hafa hins vegar jafnharðan sent þeim tilkynningu þess efnis að þau verði send úr landi með lögreglufylgd á næstu dögum. Fjölskyldan hefur dvalið hér í 8 mánuði og verið iðin við að sækja sér íslenskukennslu en foreldrarnir eru hárgreiðslufólk og áttu ungmennin að hefja nám í framhaldsskóla í haust. Flótti þeirra frá Egyptalandi hófst eftir að börnin komust naumleg út úr kristinni kirkju sem þau sóttu í heimalandinu eftir að búið var að bera eld að henni. Þá höfðu harðlínu menn af öðrum trúarbrögðum eyðilagt og á endanum svælt foreldrana út úr hárgreiðslustofunum sem þau ráku en trú þeirra og vinnulag þótti of frjálslynt heima fyrir. Í viðtalinu lýsa þau fimm mánaða vist sinni á Grikklandi áður en þau komu hingað sem algjöru helvíti.

Sanna Reykjavík snýr aftur

Þáttur Sönnu Magdalenu Mörtudóttur og Trausta Breiðfjörð Magnússonar borgarfulltrúa Sósíalista sneri aftur í vikunni. Að þessu sinni var þátturinn tvískiptur. Fyrst ræddi Trausti við íbúa í Grafarvogi, vildi heyra frá hverfisbúum hvernig aðstæður eru og hvað megi gera betur. Með tímanum er markmiðið að búið verði að ræða við fólk úr öllum hverfum. Eftir innslagið ræddi Trausti svo um Vinnuskóla Reykjavíkur. Hvers vegna ákvað meirihlutinn í Reykjavík að frysta laun unglinga? Á sama tíma var ekki tekið undir tillögu Sósíalista um að gera slíkt hið sama fyrir borgarfulltrúa. Er þetta tvískinnungur hjá kjörnum fulltrúum? Trausti ræddi þau mál við Úlfhildur Elísa Hróbjartsdóttir sem situr í ungmennaráði Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða.

Hér er þátturinn:

Helgi-spjallið við Möggu Stínu

Helgi-spjallið að þessu sinni var við Möggu Stínu. Hún frá sósíalísku uppeldi sínu, árunum á Hlemmi og öðru sem mótaði hana og gerði henni af því sem hún er í dag. Og um samfélagið sem ólst upp innan og hvernig það hefur breyst.

Rauður raunveruleiki um Bandaríkin

Í Rauðum raunveruleika vikunnar var fjallað um forsetaframbjóðendur í Bandaríkjunum sem ráðandi öfl sameinast um að halda niðri. Fjallað var um Robert Francis Kennedy Jr, Marianne Williamson og Dr. Cornel West og hvernig fjölmiðlaumfjöllun um þessa frambjóðendur fer fram og sýnd myndbönd úr fjölmiðlum og bútar úr viðtölum við þessa frambjóðendur. Þættinum var stýrt af Oliver Axfjörð Sveinssyni, sem er nýr þáttarstjórnandi hjá Rauðum raunveruleika, ásamt Karli Héðni Kristjánssyni. Gestir þáttarins voru Sæþór Benjamín Randalsson og Trausta Breiðfjörð Magnússon, en Sæþór ólst upp í Bandaríkjunum og getur sagt okkur frá sinni upplifun og þekkingu þaðan.

Vikuskammtur um fréttir vikunnar

Í Vikuskammti 25 viku við Rauða borðið sátu þau Alexandra Ýr van Erden forseti Landssambands stúdenta, Björgvin G. Sigurðsson kennari, Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir uppistandari og Hringur Hafsteinsson hönnuður og ræddu fréttir vikunnar sem einkenndist af pólitískum skjálfta, deilum og ósætti.

Sósíalískir feministar um tungumálið

Sara Stef Hildardóttir og María Pétursdóttir hafa umsjón með þáttunum Sósíalískir femínistar en þar fá þær til sín gesti og ræða feminísk mál út frá ýmsum sjónhornum. Í þætti vikunnar fengu þær til sín þýðandann Katrínu Harðardóttur og kynjafræðikennarann Maríu Hjálmtýsdóttur og ræddu tungumálið sem valdatæki eða hvernig feðraveldið ákveður hver má segja hvað, hvar og hvað þú mátt heita. Bæði Katrín og María hafa innsýn í Suður Amerískar málhefðir spænskunnar og búa yfir ýmsum dæmum til samanburðar.

Fótboltasögur af FIFA

Stefán Pálsson segir Ólafi Bjarna Hákonarsyni sjá um Fótboltasögur fyrir svefninn á miðvikudagskvöldum. Í vikunni sögðu þeir frá FIFA, hinu spillta alþjóðasambandi fótboltans. Þeir röktu söguna frá því að FIFA var lítið annað en smáskrifstofa og þar til það var orðið að sterkefnuðu risaveldi.

Þrjár sannar sögur við Rauða borðið

Hrafnkell Lárusson sagði okkur félagslegri uppbyggingu samfélagsins frá því að Ísland fékk stjórnarskrá 1874 og fram að kosningarétti kvenna 1918. Á þessum tíma varð nútíminn til í íslensku samfélagi, einmitt með félagslegri virkni almennings – ekki bara með tækniþróun eða atvinnuuppbyggingu.

Hrafnkell Lárusson sagði okkur Saltvík ’71 sem kalla má Woodstock á Íslandi, friðar- og frelsishátíð hippakynslóðarinnar.

Og Jón Ólafur Ísberg andmælti þjóðveldishugtakinu, segir það ekki standast skoðun og einkum vera notað í pólitískum tilgangi af þeim sem vilja halda því fram að við séum öll í sama báti.

Miðnætti í Kænugarð um frið og Kína

Farið var yfir stöðuna á vígvellinum og hinni pólitísku baráttu í Miðnætti í Kænugarði í vikunni. Síðan var rætt um breytta stöðu Kína í heiminum við Geir Sigurðsson prófessor og Kínafræðing. Og líka breytta áherslu Kínverska kommúnistaflokksins. Tjörvi Schiöth fór síðan yfir friðarviðræður sem leiðtogar Afríkuríkja vilja koma á, en ekki síður tilraunir í upphafi stríðsins til að stilla til friðar og hvers vegna þær tilraunir runnu út í sandinn.

Rauðaborðið frá mánudags- til fimmtudagskvölds

Það voru fjölbreytt mál tekin fyrir við Rauða borðið í vikunni. Eftir fréttir mánudagsins var rætt við Evu H. Önnudóttur prófessor um gjánna, milli þings og þjóðar. Er hún til? Síðan kom Þorvaldur Gylfason prófessor og hélt því að fram að Ísland sé alls ekki of lítið, að smá lönd standi sig betur en stór lönd. Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins halda því fram að flóttamannastraumurinn sé að kaffæra grunnkerfum samfélagsins. Er þetta rétt? Voru grunnkerfin kannski veikluð fyrir? Til að ræða þetta komu að Rauða borðinu Nína Helgadóttir teymisstjóri hjá Rauða krossinum, Magnús Þór Jónsson formaður Kennarasambandsins og Guðmundur Hrafn Arngrímsson formaður Leigjendasamtakanna. Í lok þáttar kom svo Kristinn Theódórsson tæknistjóri og sagði frá átökum guðleysingja og kristinna fyrr á öldinni, sem oft voru hörð. Og hvers vegna hann er efins um að hann hafi alltaf haft rétt fyrir sér í þeim deilum.

Við förum yfir fréttir þriðjudagsins og héldum því áfram í samtali við Sigurjón Magnús Egilsson blaðamann og fyrrum þingfréttamanns. Er ríkisstjórnin að springa? Eru allir flokkarnir að gefast upp á þessu samstarfi? Þola ríkisstjórnarflokkarnir kosningar? Elísa Guðrún Brynjólfsdóttir hefur glímt við átröskun og sagði okkur sjúkrasögu sína í þættinum.

Við förum yfir fréttir miðvikudagsins en ræddum síðan við Helga Eirík Eyjólfsson doktorsnema um aukinn ójöfnuð sem lesa má út úr Pisa-könnunum á hæfni íslenskra barna. Svo virðist sem stéttaskipting sé að aukast, að börn af heimilum verkafólks nái minni árangri í skólum í dag en fyrr á öldinni. Þá kom Njörður Sigurjónsson prófessor og ræddi um woke-bylgjuna og átökin samsvara henni í skautuðum heimi. Tilefni er uppfærsla óperunnar á Madame Butterfly og Þjóðleikhússins á Sem á himni.

Við förum yfir fréttir fimmtudagsins og ræddum síðan við Ásgeir Brynjar Torfason um efnahagslega vandann sem ráðherrarnir virðast vera að flýja með umræðum um nánast allt annað. Gengur það að reka ríkissjóð með miklum halla í bullandi góðæri og verðbólgu? Hvernig ætlar ríkisstjórn sem lítið hefur gert að mæta til kjaraviðræðna í haust, þar sem allt er undir? Það var fundur um Palestínu og Ísrael í Safnahúsinu á laugardaginn. Hjálmtýr Heiðdal formaður félagsins Ísland-Palestína kom að Rauða borðinu á fimmtudagskvöldið og sagði okkur frá átökum innan Ísrael, kúgun á Palestínumönnum og hvernig íslensk stjórnvöld ættu að bregðast við.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí