Útsendingar Samstöðvarinnar hafnar að nýju

Fjölmiðlar 13. jún 2023

Útsendingar Samstöðvarinnar á Facebook, youtube og helstu hlaðvarpsveitum hófust aftur i gærkvldi eftir mánaðarlangt hlé. Brotist var inn í stúdíó stöðvarinnar, tækjum stolið og skorið á kapla aðfaranótt laugardagsins 6. maí. Með rausnarlegum stuðningi frá áhorfendum hefur stúdíóið nú verið endurreist. Í gær hófst dagskráin á Rauða borðinu og á eftir fylgdi Miðnætti í Kænugarði, þáttum um stríðið í Úkraínu.

„Það eru nokkrir nýjir þættir í farvatninu sem detta munu inn á dagskránna á næstunni,“ segir Gunnar Smári Egilsson ritstjóri Samstöðvarinnar. Hann nefnir Fótboltasögur fyrir svefninn, Mótmæli í morgunmat og aðra þætti en vill ekki segja hvað búi að baki þessum nöfnum. „Við höfum reynt að lofa litlu,“ segir Gunnar Smári, „það er blessunarríkast.“

Auk Rauða borðsins og Miðnættis í Kænugarði verða á dagskrá Samstöðvarinnar þáttur Sönnu Magdalenu Mörtudóttur og Trausta Breiðfjörð Magnússonar um borgarmál, Rauður raunveruleiki með Karli Héðni Kristjánsson og Sósíalískir feministar með Maríu Pétursdóttur og Söru Stef. Fréttir vikunnar verða krufnar með gestum í Vikuskammti og í Helgi-spjalli verður rætt vel og lengi við einn gest. Og aðrir þættir munu bætast við jafnt og þétt.

„Með framlagi almennings og stuðningi teljum við okkur geta eflt Samstöðina umtalsvert,“ segir Gunnar Smári. „Okkur dreymir um að koma dagskránni yfir á útvarpsbylgjur, efla enn frekar fréttavefinn og þétta dagskránna. Hingað til hafa draumar okkar ræst svo ég reikna með því Samstöðin haldi áfram að vaxa og dafna. Ekki veitir af í fábreytilegu fjölmiðlaumhverfi landsins.“

Samstöðin er í eigu Alþýðufélagsins og félagar þess eru hlustendur, áhorfendur og lesendur stöðvarinnar. Félagsgjöldin eru einskonar áskrift af Samstöðinni, frá 2.000 kr. á mánuði. Hægt er að gerast áskrifandi hér, ganga í Alþýðufélagið og verða þar með einn af eigendum Samstöðvarinnar: Áskrift

Rauða borðið sneri aftur í gær eftir hlé. Eftir stutt fréttayfirlit komu þau Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB, Magnús Þór Jónsson formaður Kennarasambandsins og Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR að Rauða borðinu og ræddu kjaramál, nýgerða samninga og þá sem fram undan eru. Þau voru sannfærð um að verkalýðshreyfingin myndi mæta sterk og baráttuglöð til næstu samninga og ná fram nauðsynlegum breytingum á grunnkerfum samfélagsins, ekki bara launahækkunum.

Hafrannsóknarstofnun birti veiðiráðgjöf sína fyrir helgina, svo til óbreyttan afla frá fyrra ári. Jón Kristjánsson fiskifræðingur kom að Rauða borðinu og gagnrýndi þessa ráðgjöf, en einkum þann grunn sem hún byggir á. Hann heldur því fram að við gætum veitt tvöfalt meira.

Hér má sjá og heyra Rauða borðið frá í gær:

Miðnætti i Kænugarði sneri aftur á Samstöðina í gærkvöldi, en það var á dagskrá öll virk kvöld vikurnar eftir innrás Rússa í Úkraínu. Í þættinum var fjallað um marga anga þessa stríðs, sem teygja sig víða; eru að umbreyta alþjóðastjórnmálum, hafa mikil áhrif á efnahag álfunnar, valda flóttamannastraumi og margt fleira. Nú verður Miðnætti í Kænugarði vikulegur þáttur þar sem Tjörvi Schiöth fer yfir stöðuna á vígvellinum og fjallað verður um ýmsar afleiðingar af þessu hræðilega stríði. Gestur þáttarins í gær var Hilmar Þór Hilmarsson prófessor. Hann ræddi um lokun sendiráðsins í Moskvu og stefnu íslenskra stjórnvalda en þó mest um efnahagslega stöðu Úkraínu og getu landsins til að rétta sig við.

Hér má sjá og heyra Miðnætti í Kænugarði frá í gær:

Myndin með fréttinni er af Sonju Ýr Þorbergsdóttur, Ragnari Þór Ingólfssyni og Magnúsi Þór Jónssyni við Rauða borðið í gærkvöldi, í ný uppgerðu stúdíói Samstöðvarinnar.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí