10 neyðarlegustu afsagnirnar

Eins og áður hefur verið greint frá, þá sagði Bjørnar Moxnes, leiðtogi róttæka sósíalíska flokksins Rautt í Noregi nýlega af sér sem leiðtogi flokksins vegna stulds á gleraugum úr búð á alþjóðaflugvellinum í Osló, Gardermoen. Er málið allt hið vandræðalegasta, en margir hafa velt fyrir sér hvað maðurinn var eiginlega að spá.

Moxnes er þó ekki eini stjórnmálamaðurinn sem hrökklast hefur úr embætti vegna vandræðalegra mála. Af þessu tilefni, þá tökum við í eftirfarandi saman 10 önnur tilvik þar sem stjórnmálamenn voru gripnir með allt niðrum sig og þurftu að segja af sér.

Neil Parish

Neil Parish var þingmaður íhaldsflokksins í Bretlandi. Allt þar til að hann var staðinn að því að horfa á klám í neðri deild breska þingsins. Hann reyndi að bera fyrir sig að hann hafi óvart ýtt á klámið þegar hann var að leita að einhverju öðru. Sú réttlæting dugði ekki langt, og á endanum viðurkenndi hann hið augljósa, að hann hafi verið að horfa á klám. Hann sagði af sér þingmennsku 2022.

Alain Joyandet

Joyandet var ráðherra þróunarmála í Frakklandi. Þegar jarðskjálftinn varð á Haítí kom hann með stórar yfirlýsingar um að hjálp væri á leiðinni – og leigði sér síðan einkaþotu sem kostaði franska skattgreiðendur hvorki meira né minna en 116.500 evrur til að ferja sig á alþjóðlega ráðstefnu. Fransmennirnir voru ekki að láta bjóða sér slíka eyðslu á almannafé og létu hann taka poka sinn 2010.

Jérôme Cahuzac

Næstur í röðinni er annar Fransmaður, fyrrum fjármálaráðherra Frakklands, en hann var einna helst þekktur fyrir að tala gegn skattsvikum og skattaskjólum. Ekki eins þekktur og hann er núna samt fyrir afsögn sína – fyrir vera með fé í skattaskjólum. Skattsvikarinn sagði af sér 2012, þegar þetta var afhjúpað af rannsóknarblaðamönnum Mediepart. Bjarni Ben vill meina að þessi afsögn hans hafi verið „amateur hour“, samkvæmt óstaðfestum heimildum.

Benjamin Griveaux

Og enn annar Fransmaður. Þessi var náinn bandamaður Macron Frakklandsforseta sem var í framboði fyrir borgarstjórnarstólinn í París 2020 var gripinn við að senda klám myndbönd til ónefndrar konu. Eins og það væri ekki nógu slæmt, þá voru fóru klámfengin skilaboð hans til konunnar útum allt internetið, og voru m.a. birt af rússneskum listamanni á bloggsíðu. Þessi gifti þriggja barna faðir varð að draga sig útúr slagnum í kjölfarið.

Heinz-Christian Strache

Vara kanslari Austurríkis Heinz-Christian Strache var í fríi á Ibiza þegar hann hitti velauðuga rússneska konu. Eitt leiddi af öðru og áður en hann vissi af var hann búinn að bjóða henni alls konar feita ríkissamninga. Til dæmis að hún myndi fá að kaupa 50% hlut í einum stærsta fjölmiðli Austurríkis og breyta honum í málgagn öfgahægrisinna. Síðar kom í ljós að konan var ekki velauðugur Rússi. Strache tók alla ríkisstjórnina niður með sér í fallinu.

József Szájer

Þessi ungverski þingmaður öfgahægri flokksins Fidesz fór með látum: var gripinn af lögreglunni, í kynlífspartýi, með 25 öðrum nöktum karlmönnum, á meðan að Covid lockdown var í gangi, reyndi að flýja nakinn af vettvangi með bakpoka – sem kom í ljós að var fullur af fíkniefnum. Orbán var ekki hrifinn af þessu, Szájer sagði af sér árið 2020.

Cristina Cifuentes

Fyrsta konan á listanum. Og miðað við það sem þegar er komið fram er ástæða þess að þessi svæðisstjóri Madrid þurfti að segja af sér ekki nærri eins alvarlegt. En ekkert síður neyðarlegt – en hún var staðinn að því að stela andlitskremi. Myndband náðist af atvikinu, líkt og í tilviki Moxnes. Neyddist hún til að segja af sér 2018.

Darij Krajcic

Þessi slóvenski þingmaður er í sömu deild og Cifuentes og Moxnes. En hann stal samloku úr búð. Hann neyddist til að segja af sér 2019 vegna þessa – og borga fyrir samlokuna.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins

Mikið rétt, öll framkvæmdastjórn Evrópusambandins neyddist til að segja af sér eftir vægast sagt harðorða úttekt á störfum hennar frá utanaðkomandi aðilum. Meðal þess sem nefndin var sökuð um var víðtæk spilling, svik og frændhygli. Skýrslan leiddi meðal annars í ljós að einn stjórnarmeðlimur réð tannlækninn sinn í hálaunaða stöðu á vegum Evrópusambandsins. Öll stjórnin, sem leidd var af Jacques Santer, var látin taka pokann sinn 1999.

Petr Necas

Að lokum höfum við fyrrum forsætisráðherra Tékklands, en hann sagði af sér eftir að starfsmannastjóri hans, Jana Nagyova var kærð fyrir spillingu og misnotkun á valdi. Sú misnotkun var líka ekkert annað en epísk, en ásamt því að múta þingmönnum villt og galið, þá notaði Nagyova leyniþjónustu ríkisins til þess að njósna um eiginkonu Necas. Hvers vegna? Jú, vegna þess að Necas var að halda framhjá konunni sinni með Nagyova. Necas hrökklaðist úr forsætisráðherra embættinu, og hjónabandinu, árið 2013.

Myndin er tekin af Neil Parish þegar honum varð ljóst hver staðan var.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí