Yfir 2.500 manns hafa nú skrifað undir uppsagnarbréf til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, á síðu á vegum andófshópsins Við, fólkið í landinu. Á síðunni eru þessar ástæður gefnar upp: „Þú seldir vinum þínum eigur okkar á allt of lágu verði. Þér var treyst en þú ert ekki traustsins verður. Þú ert rekinn sem fjármálaráðherra. Gangi þér vel að finna aðra vinnu.“
Síðan var opnuð fyrir helgina í kjölfar frétta um Lindarhvolsskýrsluna, þar sem Sigurður Þórðarson settur ríkisendurskoðandi, kemst að þeirri niðurstöðu að eignir ríkisins hafi verið seldar á undirverði. Og í kjölfar skýrslu fjármálaeftirlitsins um söluna á Íslandsbanka, þar sem kom fram að þar voru lög brotin. Þar áður hafði ríkisendurskoðun komist að því að Bankasýslan, sem Bjarni fól að selja hluti ríkisins í Íslandsbanka, hafi ekki haft neina burði til að sinna því verkefni.
Allir yfirmenn Íslandsbanka sem komu að sölu bréfanna í bankanum og hálf stjórnin hefur sagt af sér og boðað hefur verið að Bankasýslan verði lögð niður. En Bjarni hefur hafnað því að hann beri ábyrgð á sölunni þótt Alþingi hafi falið honum að selja bréfin.
Í könnunum hefur komið fram að 83% landsmanna eru ósátt við söluna á Íslandsbanka og aðeins 7% ánægð með hvernig staðið var að málum. Merkja má vatnaskil í stjórnmálum við fréttir af útboðinu fyrir rúmu ári. Eftir þær féll traust almennings á ríkisstjórninni, einstökum ráðherrum og ríkisstjórnarflokkunum og það hefur fallið jafnt og þétt síðan.
Hér má reka Bjarna: Þú ert rekinn Bjarni