Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens segir að íslenska sé einfaldlega að deyja. Í færslu sem hann birtir á Facebook segir Bubbi að ekki nóg með að Íslendingar geti ekki lengur gert sig skiljanlega á móðurmálinu á veitingastöðum þá sama uppi á tengingnum á elliheimilum landsins. Bubbi segir að það sé ekki við fólkið sem starfar á elliheimilum að sakast en þrátt fyrir það kærir hann sig ekki um að þurfa að tala ensku á elliheimilunum þegar að því kemur.
„Að fara inn á elliheimili og tala íslensku er til of mikils að ætlast. Íslenskan er að hverfa á matsölustöðum, en hún er líka að hverfa á elliheimilum, þar sem heimilisfólk skilur ekki fólkið sem er að annast það. Hún er að hverfa úr sjúkrahúsum þar sem sama er uppi á teningnum,“ skrifar Bubbi.
Hann segir þetta einfaldlega kalla á hamfarir fyrir Ísland. „Hún er nánast ekki sjáanleg á auglýsingaskiltum í borginni, þar sem enskan ræður ríkjum. Móðurmálið mitt dugar mér ekki lengur í móðurlandinu, ef ég vil fara út að borða. Og mig langar ekki að tala ensku á elliheimilinu þegar að því kemur. Ég er ekki að bölva fólkinu sem vinnur sín störf, þökk sé þeim, en ef íslenskan er ekki gjaldgeng á Íslandi, þá hefur eitthvað hræðilegt gerst. Eitthvað sem má kalla hamfarir. Annars er ég góður,“ segir Bubbi.
Bubbi Morthens var gestur í Helgi-spjalli við Rauða borðið nýverið. Það viðtal má sjá hér fyrir neðan.