Eins og áður hefur komið fram hafa hver hitametin á fætur öðrum verið slegin víða í heiminum í sumar. Síðasta vika er formlega orðin að þeirri heitustu á jörðinni síðan mælingar hófust. Samkvæmt veðurathuganarstöðvum víða um heim mun þó næsta vika að öllum líkindum koma til með að verða enn heitari.
Á Ítalíu, á Grikklandi og á Kýpur mun hitinn geta náð 43-44 gráðum í næstu viku. Í Frakklandi, á Tyrklandi og í Króatíu er einnig búist við að hitinn muni ná upp fyrir 40 gráður.
Þetta er til dæmis samkvæmt veðurathugunarstöð ítalíu, sem nefnt hefur hitabylgjuna „Cerberus“, ásamt Geimferðastofnun Evrópu sem fylgist með ofan frá.
Varað er við því að júli muni verða stórhættulegur mánuður þegar kemur að hitastigi. Ítalía, Spánn, Þýskaland, Frakkland og Pólland standa öll frammi fyrir hitabylgju sem búist er við að geti náð 48 gráðum áður en yfir líkur.
Stórir hlutar af Spáni hafa verið að kljást við hitastig uppundir 45 gráður uppá síðkastið, ásamt því að BBC greinir frá því að hitinn á Mallorca náði í gær 37 gráðum – klukkan fjögur um nótt.
Hitinn er að einhverju leyti drifinn áfram af El Niño veðurfyrirbrigðinu, en loftslagsvísindamenn eru sammála um að hann sé að mestu leyti vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum.