Unglæknar, þ.e. læknar sem eru í sérnámi, hafa ákveðið að fara í fjögurra daga verkfall í næsta mánuði til þess að mótmæla vinnukjörum sínum og launum. Verkfallið mun hefjast 11.ágúst og enda 15.ágúst. Búist er við að þessi aðgerð muni leiða til þess að þúsundum aðgerða verði aflýst.
Þetta er einungis nýjasta verkfallið sem tilkynnt er í deilum starfsfólks breska heilbrigðiskerfisins, NHS, við yfirvöld, en áður hafa geislafræðingar tilkynnt um 48 tíma verkfall á 37 stofnunum NHS í þessari viku. Ráðgjafar innan NHS hafa einnig tilkynnt um verkfall í næsta mánuði, 24. og 25. ágúst. Í næsta mánuði mun því verða sex dagar þar sem heilbrigðiskerfið verði lamað vegna verkfalla.
Verkföllin hingað til hafa nú þegar leitt til þess að 819.000 tímum og aðgerðum hefur verið aflýst. Ef ekki tekst að leysa úr deilunni, þá mun fjöldi aflýstra tíma og aðgerða auðveldlega fara upp fyrir milljón.
Matthew Taylor, yfirmaður NHS, segir að kostnaðurinn við verkföllin væri í milljörðum breskra punda.
Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, hefur hingað til boðið 6% launahækkun og sagt að það sé síðasta tilboðið og hann muni ekki gefa sig neitt frekar.