Illugi Jökulsson, rithöfundur og fjölmiðlamaður, fer ekki af því að þeir stjórnmálamenn sem fordæma Birnu Einarsdóttur, fyrrverandi bankastjóra Íslandsbanka, nú séu hræsnarar. Illugi telur þingmenn meirihlutans á Alþingi vera að nýta sér það að Birna sé nú óvinsæl meðal almennings til að slá pólitískar keilur.
Í vikunni var Illugi einn fárra sem virtist koma Birnu til varnar á samfélagsmiðlum. Það er þó ekki alveg rétt, því Illugi er fyrst og fremst að gagnrýna þá sem hjóla í hana til að afla sér vinsælda. „Þau eru söm við sig í ríkisstjórnarflokkunum. Kjöldraga á Birnu Einarsdóttur eina fyrir lögleysur og spillingu við Íslandsbankasöluna. Nú bætist Bjarkey Olsen í heykvíslahópinn og er mikið niðri fyrir,“ skrifar Illugi á Facebook og deilir frétt RÚV um að enn einn stjórnarþingmaður vilji fá að vita hvað Birna fékk í starfslokasamning.
Illugi telur falskan hljóm í Bjarkey. „ Hvernig væri að hún kallaði eftir almennilegri rannsóknarskýrslu og pólitískri ábyrgð fjármálaráðherra og forsætisráðherra? Og hvernig væri að hún kallaði eftir Lindarhvolsskjölunum? Allt þetta lið var örugglega eins og smjör við Birnu Einarsdóttur meðan allt lék í lyndi, en nú á að gera hana að Prügelknabe eða sektarlambi fyrir ríkisstjórnina.“