Bjarni segir enn ósatt um flóttafólk frá Venesúela

Í hlaðvarpsþætti Þjóðmála endurtók Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ósannindi flokksfólks um stöðu flóttafólks frá Venesúela. Hann hélt því fram að staðan hafi breyst við úrskurðum kærunefndar útlendingamála frá haustinu 2021. Þá úrskurðaði kærunefndin að flóttafólk frá Venesúela sem Útlendingastofnun hafði hafnað ætti rétt á viðbótarvernd eins og fólk sem hafði áður komið. Kærunefndin breytti því ekki stefnunni heldur staðfesti ákvarðanir Útlendingastofnunar frá árunum á undan. Það var því Útlendingastofnun sjálf með stuðningi ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem tók þá ákvörðun 2018 að flóttafólk frá Venesúela ætti rétt á viðbótarvernd og fengi sjálfkrafa fjögurra ára dvalarleyfi.

Þessi ákvörðun var pólitísk. Það var kosið til forseta í Venesúela í maí 2018 og hélt stjórnarandstaðan því fram að Nicolás Maduro hefði náð kjöri með víðtæku kosningasvindli. Undir árslok lýsti þingið Juan Guaidó foresta þingsins réttkjörinn forseta. Úr þessu varð stjórnskipunardeila og átök, þar sem Bandaríkin og mörg fylgiríki þeirra lýstu Guaidó réttkjörinn forseta. Ísland var þar fremst í flokki. Með tímanum kom í ljós að Guaidó naut lítils fylgis innanlands og væntingar bandarískra stjórnvalda og fylgjenda þeirra um valdaskipti í Venesúela fjaraði út.

Það var í þessu pólitíska umhverfi sem Útlendingastofnun veitti öllu flóttafólki frá Venesúela sjálfkrafa viðbótarvernd. Þá var Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra dómsmála. 15 flóttamenn frá Venesúela komu árið 2018 en 180 árið 2019. Yfir cóvid dró aðeins úr komu flóttafólksins en 104 komu 2020 en síðan 360 árið 2021. Þá vildi Útlendingastofnun breyta um stefnu, enda botninn dottið úr tilraunum til valdaskipta í Venesúela. Um haustið úrskurðaði kærunefndin hins vegar að Útlendingastofnun gæti ekki breytt afgreiðslu umsókna án þess að einhverjar efnislegar forsendur hefði breyst.

Útlendingastofnun er skylt að taka tillit til úrskurða kærunefndar og árið eftir komu hingað 1184 flóttamenn frá Venesúela. Útlendingastofnun reyndi aftur að breyta sjálfkrafa afgreiðslunni en kærunefndin úrskurðaði aftur síðastliðið sumar að það væri óheimilt nema með rökum að um að eitthvað hefði breyst í Venesúela. Og það sem af er þessu ári hafa komið hingað 1071 flóttamaður frá Venesúela.

Eftir breytingar á lögum um útlendinga frá í vor vildi Útlendingastofnun aftur freista þess að breyta um stefnu. Nú hafa um 350 manns frá Venesúela kært til kærunefndarinnar vegna synjunar. Það má vænta úrskurða með haustinu.

Frá því að byrjað var að veita fólki frá Venesúela viðbótarvernd í kjölfar stjórnskipunardeilu í Venesúela hafa hingað komið 2914 manns. Segja má að þetta fólk sé í sérstöku boði Sjálfstæðisflokksins, sem tók upp sérstaka afgreiðslu á flóttafólki frá Venesúela árið 2018 eitt Evrópulanda. Hvergi í Evrópu fær fólk frá Venesúela viðbótarvernd enda sækir það lítið til annarra landa en Íslands.

Bjarni Benediktsson getur ekki horfst í augu við þessa staðreynd og reynir eins og aðrir Sjálfstæðisflokksmenn að kasta ábyrgðinni á kærunefnd útlendingamála.

Hlusta má á hlaðvarpið hér: Pólitíkin þarf ekki að vera sammála um allt – Bjarni Benediktsson í ítarlegu viðtali

Myndin er af Gísla Frey Valdórssyni ritstjóra Þjóðmála og Bjarna Benediktssyni.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí