Samkvæmt nýrri rannsókn eru 7 af 10 fræðimönnum og sérfræðingum sammála þeirri fullyrðingu að borgaraleg óhlýðni aðgerðasinna, svo sem að trufla opinberar samkomur með ýmsum hætti, séu mjög mikilvægar fyrir velgengni mótmælahreyfinga.
Rannsóknin kemur í kjölfar aðgerða hópsins Just Stop Oil í Bretlandi sem berjast gegn loftslagsbreytingum, en meðlimir hans stöðvuðu til dæmis Pride gönguna á dögunum. Aðgerðasinnarnir hafa einnig einbeitt sér að tennismótinu Wimbledon og tókst á dögunum að valda ýmsum seinagangi og vandræðum fyrir áhorfendur þar, m.a. með því að hlaupa inná vellinn.
Niðurstöður rannsóknarinnar eru á skjön við álit almennings, en samkvæmt nýlegri Yougov könnun töldu 78% Breta að slíkar aðgerðir sköðuðu málstað mótmælenda frekar en að hjálpa honum.
Hugveitan Social Change Lab í Bretlandi stóð fyrir rannsókninni, og voru 120 sérfræðingar á sviði félagsfræði, stjórnmálafræði og á öðrum tengdum sviðum spurðir. Louisa Parks, dósent í félagsfræði við háskólann í Trento á Ítalíu segir í samtali við The Guardian um rannsóknina að slíkar aðgerðir hafi kannski neikvæð áhrif á almenning til skamms tíma, en til langs tíma virka þær tvímælalaust þegar kemur að því að vekja athygli á málefnum og fá stjórnvöld til að gera eitthvað í málunum sem um ræðir.
Bart Cammaerts, stjórnmálafræði prófessor við London School of Economics bendir einnig á að saga félagslegra breytinga er saga mótmæla sem trufluðu hversdagslíf fólks – hvort sem okkur líkar betur eða verr.
Rannsóknin leiddi einnig í ljós að þegar kemur að velgengni mótmælahreyfinga þá er annað mikilvægt atriði það að geta skipulagt sig og bregða hratt við atburðum. Mesta hættan fyrir slíkar hreyfingar er þó innbyrðis rifrildi meðlima, ásamt skorti á skýrri sýn.