„Ef Seðlabankinn hækkar vexti í ágúst, væru það peningastefnumistök, þ.e. að hækka vexti þegar engin þörf væri á því – og jafnvel gera illt verra?“ segir Ólafur Margeirsson hagfræðingur á Facebook-síðu sinni.
Ólafur synir tvo punkta um hvernig gengur í íslenska hagkerfinu sem stendur: innflutningur er að dragast saman frá sínum hæstu hæðum og raunvöxtur kortanotkunar Íslendinga innlendis er greinilega að veikjast milli ára.
„Við leggst augljós samdráttur í útlánum banka til heimila, sem hefur varað í nokkra tíð, sem og nýlega til fyrirtækja. Íbúðafjárfesting er einnig að dragast hratt saman. Þá er peningamagn í umferð (M1) að dragast saman, m.a. vegna samdráttarins í nýjum bankalánum sem og vegna minni halla á rekstri ríkissjóðs (halli á rekstri ríkissjóðs eykur peningamagn í umferð),“ segir Ólafur.
Og heldur áfram: „Á sama tíma er ferðageirinn náttúrulega á fullu spani, sem sést ágætlega á metfjölda hótelgistinga og mikillar kortanotkunar útlendinga á Íslandi. Það er samt ekki nóg til að viðhalda vexti landsframleiðslu því mikil ferðalög Íslendinga erlendis og innflutningur hefur dregið úr nettó framlagi utanríkisviðskipta til hagvaxtar.
Fáir punktar líkt og þessir svara vitanlega ekki heildarmyndinni En það er spurning hvort hagkerfið sé ekki loksins að finna fyrir m.a. vaxtahækkunum Seðlabankans. Ef það verður mat Seðlabankans sjálfs í ágúst, ofan á jákvæða verðbólgumælingu fyrir júlí, verður lítil ástæða fyrir hann að hækka vexti einu sinni enn: til hvers, úr því verðbólga er að þróast betur en spáð var og merkjunum um að hagkerfið sé að hægja á sér fjölgar? Sjáum hvernig þetta þróast á næstu mánuðum,“ endar Ólafur pistilinn.