Hagvöxtur í Kína, við lok seinni ársfjórðungs, var 6,3% frá seinni ársfjórðungi fyrir ári síðan. Kínverska hagkerfið óx um einungis 0,8% frá fyrsta ársfjórðungi, en þetta er töluvert minni vöxtur en hingað til hefur verið venjan þegar kemur að þessu öðru stærsta hagkerfi jarðarinnar.
Hagfræðingar benda á minnkandi útflutning, fallandi húsnæðisverð og minni einkaneyslu sem skýringuna á þessum hæga vexti.
MInnkandi vöxtur í Kína er áhyggjuefni fyrir alla heimsbyggðina, en kínverska hagkerfið hefur svo að segja haldið uppi heimshagkerfinu síðustu áratugi með gríðarlegum vexti sínum sem á sér engin söguleg fordæmi. Búist er við lönd heimsins muni kalla eftir að Kína grípi til efnahagsaðgerða til að örva hagkerfið, en einungis eru um sex mánuðir síðan að Kína aflétti hörðum aðgerðum til að stemma stigu við Covid faraldrinum.
Jim Chalmers, fjármálaráðherra Ástralíu, sagði að heimshagkerfið væri á nokkuð hættulegum stað – en Ástralía er eitt af þeim ríku löndum heims sem mest er háð Kína efnahagslega.