Samkvæmt nýrri skoðanakönnun, sem framkvæmd var af samtökum skólahjúkrunarfræðinga í Bretlandi SAPHNA (School and Public Health Nurses Association), þá hafa 65% hjúkrunarfræðinga í skólum tekið eftir versnandi heilbrigði barna. Er þetta beinlínis tengt versnandi lífskjörum fólks síðustu ár.
Könnunin leiðir í ljós að mikill meirihluti heilbrigðisstarfsfólks í skólum hefur tekið eftir að börn hafi minni orku en áður, ásamt því að börn séu ekki eins vel nærð. 80% svaranda voru sammála því að tannheilsa barna sé búin að versna til muna.
Niðurstöður þessarar könnunar koma heim og saman við hina svokölluðu Broken Plate skýrslu frá því fyrr á árinu, en sú rannsókn komst að þeirri niðurstöðu að börn í Bretlandi eru að meðaltali mun lágvaxnari en börn í öðrum Evrópulöndum, og að ástæðan fyrir því sé skortur á næringu vegna versnandi lífsskilyrða síðustu ár.
Ýmis heilbrigðis- og menntamála samtök í Bretlandi hafa tekið sig saman í herferð að nafni Leave No Child Behind, sem krefst þess að öllum börnum verði gefinn matur í skólum að kostnaðarlausu. 94% heilbrigðisstarfsfólks er sammála því, samkvæmt þessari skoðanakönnun, ásamt því að tölur hafa endurtekið sýnt að yfirgnæfandi meirihluti almennings í Bretlandi sé einnig sammála því að öllum börnum ætti að vera gefin frír matur í skólum. Fulltrúar þessarar herferðar afhentu opið bréf til forsætisráðherra Bretlands, Rishi Sunak, 29. júní. 240 samtök, og 90.000 einstaklingar skrifuðu undir bréfið til stuðnings.
Samkvæmt áðurnefndri Broken Plate skýrslu var 17% aukning á heimilum sem ekki hefðu efni á mat í Bretlandi á síðasta ári.