Það eru hvergi dýrari egg í Evrópu en á Íslandi samkvæmt lífskjaravefnum Numbeo. Nema í Sviss, en þar eru laun miklu hærri en á Íslandi. Þótt eggin í Zürich séu 16% dýrari en í Reykjavík þá getur Svisslendingur á lágmarkslaunum keypt 43% fleiri egg fyrir hvern dagvinnutíma, 46 egg þegar íslenskt láglaunafólk fær aðeins 32 egg fyrir klukkutíma vinnu.
Fyrir utan Sviss eru eggin í Evrópu miklu ódýrari en á Íslandi. Eggin á Íslandi eru 24% dýrari en í Danmörku, 51% dýrari en í Svíþjóð, 53% dýrari en í Noregi og 109% dýrari en í Finnlandi. Fyrir þessu eru engin eðlileg rök. Það eru sömu varphænur á Íslandi og annars staðar, þær borða ekki meira og verpa jafn mikið. Eina ástæðan fyrir því að Íslendingar borga meira fyrir eggin sín er fákeppni. Eins og á öðrum mörkuðum eru fá fyrirtæki sem skipta á milli sín markaðnum og gæta þess að raska honum ekki með verðsamkeppni. Það er því samantekin ráð framleiðenda að halda verðinu háu.
Um þetta þarf ekki að deila. Verðið afhjúpar markaðsbrestinn.
Á þessu korti má sjá verð á 12 eggjum samkvæmt Numbeo eftir löndum Evrópu:

Eins og sjá má sker Ísland sig algjörlega frá Evrópu. Undantekningin er Sviss. Og skýringin á háu eggjaverði þar er að laun í Sviss eru miklu hærri en annars staðar.
Hérlendis eru lágmarkslaun 368 þús. kr. á mánuði og er þá miðað við tæpa 168 tíma á mánuði. Lágmarkslaun í Zürich eru 23,90 frankar eða 3.642 íslenskra króna og þá tæplega 612 þús. kr. á mánuði. Það eru 66% hærri laun en á Íslandi. Og munar verkafólkinu þá ekki mikið um þó eggin séu 19% dýrar.
Hátt matarverð er mikill vandi. Ekki bara almennt heldur veldur hátt matarverð því að kjör láglaunafólks verða hlutfallslega verri hér en annars staðar. Þau sem hafa litlar tekjur borga stærri hluta launa sinna í mat en þau sem hafa hærri tekjur.
Og matarverð hér er ekki bara hátt, eins og dæmið af eggjunum sýnir, heldur hefur matur hækkað meira en aðrar neysluvörur að undanförnu. Við slíkt ástand skerðast kjör lágtekjufólks meira en annarra.