Einn helsti loftslagsvísindamaður NASA, Gavin Schmidt, hélt blaðamannafund í höfuðstöðvum NASA í Washington í gær. Þar hélt hann því fram að allar líkur séu á að júlí muni koma til með að verða heitasti mánuður jarðarinnar í hundruðir, ef ekki þúsundir ára.
Blaðamannafundurinn var haldinn í tilefni af ráðstefnu topp loftslagsvísindamanna og annarra í Washington. Bill Nelson, yfirstjórnandi NASA og yfirvísindamaður og ráðgjafi í loftslagsmálum Kate Calvin voru einnig viðstödd.
Ummælin koma í kjölfar mikilla hitbylgja um heim allan, sem leitt hafa til hinna ýmsu náttúruhamfara. Bandaríkin og Kína t.d. hafa glímt við mikil flóð, á sama tíma og margar, ef ekki flestar Evrópuþjóðir eru að slá öll met í hitastigi sem sums staðar er lífshættulegt.
Schmidt sagði að við værum að sjá fordæmalausar breytingar um heim allan. Hann bætti einnig við að þrátt fyrir að breytingarnar væru sjokkerandi, þá kæmu þær ekki á óvart, en hitastig jarðarinnar hefur vaxið jafnt og þétt síðustu áratugi. Síðastliðinn júní mánuður er heitasti júní mánuður síðan að mælingar hófust, og samkvæmt sumum módelum eru allt uppí 80% líkur á að þetta ár, 2023, verði það heitasta.
Schimdt gerði einnig lítið úr áhrifum El Niño. Hann benti á að það veðurfyrirbrigði sé varla farið af stað ennþá og gæti því ekki útskýrt hitann nema að litlu leyti. Breytingarnar stafi fyrst og fremst af loftslagsbreytingum af mannavöldum.