Katrín og Þórdís sagðar flýja í faðm erlendra ráðamanna til að losna undan kraumandi reiði á Íslandi

„Meðan vandamálin hlaðast upp innanlands er gott að geta sótt ráðherrafundi erlendis og hitta þar góða ,,kollega“ sem hægt er að faðma og kyssa, því jafnvel á flokksráðstefnum heima fyrir finnst ekki slík þægileg samstaða og skilningur. Þessi láréttu tengsl virðast vera farin að skipta ráðamenn meira máli en lóðréttu tengslin við kjósendur sína. Fyrir kjósendur VG hlýtur að vera óþægilegt að sjá forsætisráðherrann skellihlæjandi á NATO fundum, þar sem olíu er hellt á ófriðarbálið í Úkraínu.“

Þetta skrifar Arnar Þór Jónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, á vef sínum í dag. Arnar virðist hafa fengið sig fullsaddan af ríkisstjórninni á dögunum. Undanfarna viku hefur Arnar látið ríkisstjórnina og ráðherra hennar heyra það, og það svo gott sem daglega. Flestir hafa líklega tekið eftir því að ráðherra Ísland hafa verið áberandi mikið á fundum erlendis á þessu ári. Bæði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður VG, og Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, virðast viku eftir viku á nýjum fundi í útlöndum. Oftast í tengslum við stríðið í Úkraínu, að svo virðist.

Arnar segir þetta ekkert annað en flótta undan köldum veruleikanum á Íslandi. „Ríkisstjórnarflokkarnir eru komnir í sjálfheldu. Bakland stjórnarflokkanna er orðið órólegt og kjósendur þeirra eru, skiljanlega, óánægðir með „störf“ ráðherra sinna. Hér eru gæsalappir viðeigandi því hér hefur flest verið látið reka á reiðanum síðustu misseri,“ segir Arnar.

Hann segir að líklegasta niðurstaðan sé jafnframt sú versta, að ríkisstjórnin muni hanga fram að kosningum. „Starfhæf ríkisstjórn vinnur saman sem ein heild, en starfar ekki í deildum eins og núverandi ríkisstjórn virðist nú að gera til að framlengja líf sitt. Mótsagnakennd framganga ráðherranna mun á endanum magna upp slíkt óþol á alla kanta að stjórnin mun springa með hvelli. Þau endalok óttast atvinnustjórnmálamenn stjórnarflokkanna mjög enda er fyrirsjáanlegt að þeim verður refsað í næstu kosningum. Í örvæntingu sinni reyna ráðherrar að friða kjósendur sína með dyggðaflöggun, sbr. frumhlaup matvælaráðherrans í hvalveiðimálum og frumhlaup utanríkisráðherrans með lokun sendiráðs Íslands í Moskvu,“ segir Arnar.

Hann segir að þetta muni  þó koma í bakið á ríkisstjórnarflokkunum þremur, þeir verði bara óvinsælli því lengur sem þetta ástand varir. „Eftir því sem þetta ástand varir lengur, þeim mun óvinsælli verða ríkisstjórnarflokkarnir. Í beinu samræmi við þetta mun vaxa tregða meðal allra þessara flokka við það að slíta stjórninni, því ekki blasir við hvernig komast megi hjá kosningum í framhaldi, enda eru aðrir flokkar ýmist óstjórntækir eða áhugasamir um að láta kjósa á ný í von um að fá vind í sin segl. Af öllu framangreindu leiðir, að meðan núverandi ástand helst óbreytt munu íslensk stjórnmál birtast okkur í sinni verstu mynd.“

Myndin er tekin á Íslandi, ekki erlendis, en sýnir þó vel að Katrín og erlendir ráðamenn eiga skap saman.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí