Kristinn tekur íslenska blaðamenn til bæna – Íþróttablaðamaður sá eini sem hringdi eftir sögulegan fund

Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, segir blaðamönnum, og þá sérstaklega íslenskum, til syndanna í pistli sem hann birtir á Facebook nú í morgun. Hann segir þá marga flæmast undan að fjalla um stöðu Julian Assange, því þeir standa í þeim misskilningi að telja það hagsmunaárekstur. Kristinn segir þann misskilning valda því að þeir svíkja sitt hlutverk, sem er að gæta almannahagsmuna. Hann segir það lýsandi að enginn blaðamaður sló á þráðinn eftir að hann fundaði á dögunum með forseta Argentínu, nema einn og sá var íþróttablaðamaður.

Og þetta eru engar ýkjur hjá Kristni, miðað við lauslega leit á Google þá hefur engin frétt verið skrifuð um Assange á RÚV á þessu ári. Nafn hans var nefnt í þremur fréttum, þar á meðal umfjöllun um fatahönnuðinn Vivienne Westwood, en eftir því sem best verður séð þá hefur ekkert verið fjallað um nýjar vendingar í máli Assange. Á Mbl og Vísi er staðan örlítið skárri en ekki mikið, ein frétt á mbl og tvær á Vísi. Til samanburðar þá hefur Samstöðin skrifað sjö fréttir um Assange á þessu ári. Af nógu hefur verið að taka enda stefnir í að örlog Julians Assange ráðist á næstu vikum.

Hér fyrir neðan má lesa pistil Kristins í heild sinni.

Ég heyri nokkuð spurt af hverju ekki sé meira sagt frá baráttunni fyrir frelsi Julian Assange í fjölmiðlum á Íslandi, nú siðast í tilefni af fundi Stellu, eiginkonu hans, með Páfanum í gær. Ég hef ekki svarið við þessu en rétt að geta þess að allar helstu fréttaveitur, t.d. Reuters og AP, fluttu þessar fréttir í gær.

Heimssamband blaðamanna styður Julian. það gerir Evrópusamband Blaðamanna einnig. Fjöldi landsfélaga blaðamanna gera það líka, þar á meðal Blaðamannafélag Íslands og Félag Fréttamanna. Nánast öll (ef ekki öll) samtök heims sem leggja áherslu á frjálsa blaðamennsku og öryggi blaðamanna hafa skýra afstöðu og lýsa yfir þungum áhyggjum.

Ritstjórnir fjölmargra stórfjölmiðla tala einnig gegn framsali til Bandaríkjanna og/eða því að ákærurnar séu felldar niður, þar á meðal þeir fimm stærstu fjölmiðlar sem voru „samsekir í glæpnum“ sem Julian er ákærður fyrir þ.e. El Pais, Spiegel, Le Monde, Guardian og New York Times.

Það er sum sé alveg skýrt að allt „batteríið“ í kringum blaðamenn hefur dregið þá ályktun að málið sé alvarlegt. Það leiðir að sjálfu sér að þar með er málið FRÉTT og það stór.

Ég hef heyrt þá skýringu að blaðamenn eigi erfitt með að leggja of mikla áherslu á málið í umfjöllun þar sem með því séu þeir í eigin hagsmunagæslu – taka þátt í aktivisma. Þessu er ég algjörlega ósammála. Í fyrsta lagi er málið augljóslega frétt í heild sinni (sbr að ofan) og þarf enga afsökun til að fjalla ítarlega um það án þess að það sé talið flokkast undir annarlega hagsmunagæslu. Að flæmast undan því að fjalla um málið og anga þess, með vísan til hagsmunaárekstra („ég er blaðamaður. Assange málið er árás á blaðamennsku. Þar með get ég ekki fjallað um það“) er ámátlegur undansláttur. Þetta ER frétt OG þetta er árás á grundvöll frjálsrar blaðamennsku. Og ef menn hafa þá trú að frjáls blaðamennska sé hornsteinn lýðræðisins er þetta mál líka árás á lýðræðið. Í því ljósi er það á skjön við hlutverk blaðmanna að sitja hjá og fjalla lítið eða ekkert um málið.

Páfinn lætur sig málið varða, ólíkt mörgum. Hér er hann með eiginkonu Assange, Stellu.

Ég er blaðamaður í hagsmunabaráttu fyrir tilveru blaðamennskunnar. Ég finn ekki fyrir neinum hagsmunaárekstrum. Blaðamenn eiga ekki að láta flæma sig til þagnar þegar sótt er að þeirra tilverugrunni því þá eru þeir að svíkja sitt hlutverk sem er að gæta almannahagsmuna. Frjáls pressa fellur undir almannahagsmuni. Þeir blaðamenns em sitja þöglir, auðum höndum á meðan fasísk öfl smám sman svart-tússa yfir öll þeirra verk eru alvarlega að misskilja hlutverk sitt.

Loks svona á léttum nótum má nefna að á meðan ég ferðaðist í vetur um Rómönsku Ameríku og átti m.a. fundi með fimm forsetum fékk ég aðeins eina upphringingu frá íslenskum blaðamanni. Var þá staddur í Buenos Aires í Argentínu, nýbúinn að eiga tvo fundi, annan með Alberto forseta og hinn með Cristinu Kirshner, varaforseta. Upphringjandinn var frá íþróttadeild Fréttablaðsins sáluga og vildi hann heyra hvernig stemmingin væri í borginni eftir sigur Argentínumanna á heimsmiestaramótinu í fótbolta. Honum til hróss, þegar ég minnti hann á að ég væri svona aðallega í vinnuferð, tókst honum að vefa það mál aðeins inn í íþróttafréttina. Mér fannst þetta dálítið lýsandi.

En til upplýsingar þá erum við í slagnum á þeim stað núna að það eru örfáar mínútur eftir af leiknum og við erum marki undir. Ef ekkert breytist blasir við tap. Núna erum við í hörðum slag að reyna að ná inn marki til að fá framlengingu og síðar sigur. Við nemum vaxandi stuðning upp í stúku og hann er gríðarlega mikilvægur.

Leiklýsendur mættu vera áhugasamari.

Kristinn var gestur Rauða borðins á dögunum, en það viðtal má horfa á hér fyrir neðan. Þar fyrir neðan má hlusta á samtal Ögmundar Jónassonar, fyrrverandi ráðherrra, Þorsteins Siglaugssonar hagfræðings og formann Málfrelsis, og Aðalsteins Kjartanssonar, blaðamanns og varaformanns Blaðamannafélagsins, þar sem þeir ræða þögnina um mál Assange.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí