Í Danmörku varðar það 14 daga fangelsi að betla fyrir framan súpermarkaði, á Strikinu eða við Nørreport stöðina í Kaupmannahöfn. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur ákveðið að taka þessa löggjöf fyrir, og mörg mannréttindasamtök fagna þessari ákvörðun.
Það var rúmenískur maður, sem árið 2021 var dæmdur í 20 daga óskilorðsbundið fangelsi fyrir að betla útá götu í Kaupmannahöfn, sem fór með málið fyrir mannréttindadómstólinn. ENNHRI, samtök evrópskra mannréttindasamtaka, tóku málið í sína arma og studdu, með þeim afleiðingum að Mannréttindadómstólinn hefur nú ákveðið að taka þessa umdeildu löggjöf Danmerkur fyrir.
Talsmaður mannréttindastofnunar í Danmörku (Institut for Menneskerettigheder) fagnar þessari ákvörðun, og segir það vekja sérstaka gleði hvernig mannréttindasamtök um alla Evrópu tóku höndum saman í þessu máli.
Á tímabilinu júní 2017 til mars 2021 voru 65 manneskjur dæmdar í óskilorðsbundið fangelsi í Danmörku fyrir betl.
Löggjöfin hefur verið gagnrýnd harðlega af mannréttindasamtökum, sem segja að það sé brot á mannréttindum að fangelsa fólk í neyð fyrir betl.