Mikill meirihluti Íslendinga hæstánægður með Nató á stríðstímum

Íslendingar eru ánægðir með Nató en almenningur aðildarríkjanna almennt en eru síður til að auka útgjöld í hernað eða verja önnur Natóríki. Íslendingar styðja Úkraínu frekar en aðrar þjóðir í Nató, trúa fréttum af stríðinu og telja að innrás rússneska hersins í Úkraínu ógni eigin öryggi.

Nató hefur gert könnun meðal almennings í aðildarríkjunum um ýmislegt tengt bandalaginu og stríðinu í Úkraínu. Þegar spurt var hvort almenningur teldi sig búa við meira öryggi vegna bandalags Evrópuríkja og ríkjanna í Norður Ameríku sögðust 75% Íslendingar svo vera í samanburði við 59% almennings í Natóríkjunum. Þegar spurt var hvort almenningur teldi Nató miikilvægt fyrir öryggishagsmuni ríkjanna til framtíðar 77% Íslendinga að Nató væri mjög eða frekar mikilvægt í samanburði við 72% í öllum aðildarríkjunum.

Næst var spurt hvort fólk myndi kjósa með Nató-aðild ef boðið væri upp á þjóðaratkvæðagreiðslu um það mál. 75% Íslendinga segjast greiða atkvæði með Nató en 8% á móti. Yfir öll löndin segja 70% já við Nató en 14% nei, takk.

Íslendingar eru sem sé ánægðari með Nató en almenningur í Nató-löndunum almennt. En þegar kemur að því að leggja eitthvað til, þá breytist staðan.

Þegar spurt er hvort fólki finnist að sitt ríki eigi að verja önnur ríki í bandalaginu segja 64% almennings í Nató já en aðeins 45% Íslendinga. Aðeins fólk í Búlgaríu og Makedóníu er tregara. Þegar spurt var hvort fólk vildi að framlög til hernaðar yrðu aukin sagði 37% heildarinnar að svo ætti að vera en 36% að framlögin ættu að vera óbreytt. Meðal Íslendinga vildi aðeins 21% auka framlögin og 40% að halda þeim óbreyttum.

Þegar spurt var hvort fólk teldi að öryggi eigin landa væri ógnað af innrás rússneska hersins í Úkraínu sagði 20% almennings í bandalaginu að ógnin hefði aukist mikið og 44% eitthvað, samtal 64%. Meðal Íslendinga var hlutfallið 19% mikið og 50% nokkuð, samtals 69%.

Þá var spurt hvort fólk legði trúnað á fréttir fjölmiðla af Úkraínustríðinu. Í öllum löndum Nató sögðust 14% trúa fréttum algjörlega og 35% nokkuð, samtals 49%. En 23% Íslendinga sögðust trúa fréttunum algjörlega og 54% nokkuð, samtals 77%.

Meðal alls almennings í bandalaginu segjast 66% styðja Úkraínu mikið eða nokkuð en þetta hlutfall er 89% á Íslandi. Íslendingar eru á toppnum þarna. Stuðningurinn er minnstur næst Úkraínu, en hann er undir 50% í Ungverjalandi, Grikklandi, Slóvakíu, Svartfjallalandi, Makedóníu og Búlgaríu.

Svörin við spurningum um afstöðuna til Rússlands og Kína eru ekki greind eftir löndum en afstaðan hefur versnað hratt. Árið 2021 sögðust 40% íbúa Natólandanna hafa neikvæða afstöðu til Rússlands en 66% nú. Fyrir tveimur árum höfðu 41% neikvæða afstöðu til Kína en 54% í dag.

Myndin er af Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra Íslands og Jens Stoltenberg framkvæmdastjóra Nató ánægð hvort með annað.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí