Össur Skaprhéðinsson gerir upp við svilkonu sína, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem felldi hann í formannskjöri í Samfylkingunni 2005. Ingibjörg fékk þá 7.997 atkvæði, eða um tvo þriðju atkvæða, og Össur 3.970. Össur segir Ingibjörgu hafa fært Samfylkinguna til hægri og tekið stöðu með Baugi, Kaupþingi og öðrum fyrirtækjum nýríkra manna í deilum þeirra við Davíð Oddsson formann Sjálfstæðisflokksins. Og að eftir ríkisstjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn hafi reynst erfitt fyrir flokkinn að verjast nafngiftinni „hrunflokkur“.“
Össur er í viðtali við Kolbrúnu Bergþórsdóttur í Sunnudagsmogganum. Og fer meðal annars yfir þessa sögu. Kolbrún spyr hann um framboð Ingibjargar gegn honum, sitjandi formanni.
„Það kom mér í opna skjöldu, bæði pólitískt og persónulega, enda hörkusigling búin að vera á flokknum. Við vorum fornvinir úr stúdentapólitík, þar sem hún tók við af mér sem formaður Stúdentaráðs, og við að auki gift systkinum. Tengslin nógu náin til þess að við Árný vorum svaramenn þegar hún giftist Hjörleifi, bróður Árnýjar. Þegar hún ákvað að flytja sig yfir í landsmálin heyrði ég það fyrst á leið úr viðtali við Stöð 2. Samfylkingin hafði þá náð 31 prósents fylgi í hreinum framboðum í sveitarstjórnarkosningunum árið 2002, hélt því fylgi í þingkosningunum ári síðar, en hefur aldrei náð jafnmiklu fylgi síðan. Á þessum tíma var framrás kvenna á öllum sviðum og kannski ekkert óeðlilegt við það að Ingibjörg Sólrún og konur vildu máta sinn fulltrúa í forystustöðu í flokki sem barðist fyrir jafnrétti kynjanna og þar sem meirihluti kjósenda var konur. Svo skrítið sem það kann að hljóma átti ég langbestu ár mín í stjórnmálum upp úr þessum sviptingum og við Ingibjörg Sólrún unnum vel saman þegar frá leið.“
Var einhver hugnyndafræðilegur ágreiningur milli þín og Ingibjargar Sólrúnar?
„Það voru að minnsta kosti núansar á milli. Við stofnun flokksins skilgreindum við Samfylkinguna sem frjálslyndan, klassískan jafnaðarmannaflokk og staðsettum hann kyrfilega til vinstri við miðju. Kvennalistinn, kannski vegna uppruna aðstandenda hans, taldi „hægri“ og „vinstri“ vera hugtök sem tilheyrðu fortíðinni, og talaði um „þriðju víddina“. Þetta var líka upplegg Tony Blair í Bretlandi og ég man að í frægri Borgarnesræðu lyfti Ingibjörg Sólrún einmitt „þriðju leið“ Tony Blair og lagði þessi hugtök, hægri og vinstri, til hliðar. Samfylkingin varð í reynd mjög blair-ískur flokkur. Forystumenn og ráðgjafar þeirra fóru jafnvel til Bretlands til að stúdera þriðju leiðina, og hingað til Íslands voru fluttir hugmyndafræðingar Blairs, eins og Anthony Giddens sem einmitt hafði skrifað biblíu Blair-ismans. Sjálfur var ég hins vegar ekki Blair-isti af hugmyndafræðilegum ástæðum og útskýrði það í viðtali hér í Mogganum. Í dag er svo orðstír Tony Blair að engu orðinn vegna blekkinga hans í tengslum við Íraksstríðið.
Það skipti líka máli, og reyndist óheppilegt í ljósi síðari sögu, að á þessum árum fór Samfylkingin að tala með þeim hætti að hún eiginlega skipaði sér í lið í hatrömmum átökum sem voru þá í gangi í viðskipta- og efnahagslífinu. Þessi átök voru á milli annars vegar ættarveldanna í Sjálfstæðisflokknum, sem við á Þjóðviljanum kölluðum í gamla daga ýmist kolkrabbann eða fjölskyldurnar fjórtán, og svo hins vegar nýríkra viðskiptavíkinga. Þeir höfðu á örfáum árum í kjölfar einkavæðingar bankanna safnað miklum auði og orðið mjög valdamiklir í efnahagslífinu. Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, gekk á þetta lið með hnútasvipum, og var sakaður um að misbeita pólitísku valdi til að þrengja að þeim á allan hátt.
Þetta voru árin þegar Baugsveldið var til rannsóknar og allt lék á reiðiskjálfi í pólitíkinni út af því. Nýju auðmennirnir áttu það því sameiginlegt með þeim sem tengdust Ráðhúspólitíkinni að líta á Davíð sem drýsil með horn og hala og andstaðan við Sjálfstæðisflokkinn, sem ég hafði teiknað upp sem höfuðandstæðing okkar jafnaðarmanna, var persónugerð í Davíð. Það var líka nokkuð augljóst á þessum árum að þessi sveit leitaði eftir pólitísku skjóli hjá Samfylkingunni. Ég fór ekki varhluta af því þótt ég hefði sjálfur lent í illvígum, persónulegum deilum við Baugsveldið og sent þeim bréf, sem Styrmir lýsti – réttilega – sem „hatursfullu“ í Mogganum
Í Borgarnesræðunni, sem var eins konar hugmyndafræðilegur grunnur að þeim flokki sem Ingibjörg Sólrún vildi leiða, var svo málstaður Bónuss og Kaupþings, raunar fleiri fyrirtækja, tekinn upp gagnvart Davíð og út í frá túlkuðu því margir ræðuna þannig að flokknum hefði verið stillt upp þeirra megin á skákborðinu. Í kjölfarið, þegar bankahrunið brast á, og rannsóknarskýrslur röktu orsakir þess meðal annars til háttsemi einstaklinga sem tengdust þessum fyrirtækjum, þá reyndist erfitt fyrir flokkinn að verjast nafngiftinni „hrunflokkur“.“