Sagði reynt að fá Kobba og Tomma í stað Vg inn í ríkisstjórnina

Björn Ingi Hrafnsson, fyrrum áhrifamaður í Framsóknarflokknum, hefur endurvakið vef sinn Viljann í tilefni af vaxandi ágreiningi innan ríkisstjórnarinnar. Þar birtir hann skýringar sínar á ástandinu í bland við aðrar fréttir, ekki síst af miklu óþoli fólks innan Sjálfstæðisflokksins með ríkisstjórnarsamstarf við Vg. Í nýjustu skýringunni heldur hann því fram með þess sem hafi verið skoðað sé að veiða Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson úr Flokki fólksins til fylgilags við ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.

„Heimildarmenn Viljans segja að tólfunum sé kastað og Bjarni Benediktsson, formaður flokksins og fjármálaráðherra, muni ekki ná enn og aftur að hemja reiði flokksmanna í haust. Til þess séu vandræðin orðin of mikil og þolinmæðin of lítil. Flokkurinn eigi von á útreið í næstu kosningum, ef hann haldi áfram þátttöku í ríkisstjórn sem sé í andstöðu við þjóðina og helstu stefnumál sín,“ skrifar Björn Ingi undir nafninu Kallinn á kassanum í grein sem hann kallar Pólitísk veðurspá: Stormur í aðsigi.

Á eftir þessu fylgdi spádómur um að annað hvort yrði tveggja manna þingflokkur Miðflokksins tekinn inn í ríkisstjórnina í stað Vg eða tveir af þingmönnum Flokks fólksins, þeir Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson. Eitthvað hefur þetta farið vitlaust ofan í heimildarmenn og lesendur Björn Inga því hann hefur nú breytt setningunni sem hljómar nú svo: „Hermt er að óformlegar þreifingar hafi átt sér stað um myndun þingmeirihluta án þátttöku Vinstri grænna. Hefur þar meðal annars verið horft til Flokks fólksins og Miðflokksins.“

Þær eru því lifandi og kvikar fréttaskýringar Viljans, augljóslega stýrðar áfram af sannfæringu um að dagar ríkisstjórnarinnar séu í raun taldar. Björn Ingi var aðstoðarmaður Halldórs Ásgrímssonar á sínum tíma og síðar borgarfulltrúi Framsóknar þar til hann sagði af sér. Björn Ingi var tryggur fylgismaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar þegar Sigmundur var formaður Framsóknar en það hefur verið erfitt að ráða í hvorum megin hryggjar Björn Ingi hefur verið undanfarið, með Sigmundi Davíð eða Sigurði Inga Jóhannssyni núverandi formanni.

Björn Ingi er ekki sá eini innan eða við Framsókn sem talað hefur um inngöngu Miðflokksins inn í ríkisstjórn og helst sameiningu Miðflokks og Framsóknar. Sagt er að það sé vilji áhrifamanna flokksins í Skagafirði sem telji komið nóg af þessari sundrung. Fylgi Framsóknar hefur helmingast í skoðanakönnunum frá kosningum og er farið að nálgast fylgi Miðflokksins, sem aftur á móti hefur risið eilítið. Samanlagt fylgi þessara flokka er um og yfir 15%, sem mörgum grónum Framsóknarmönnum þykir ekki til skiptanna milli tveggja flokka.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí