„Þrátt fyrir að úrræðið sé kynnt sem flaggskip stjórnvalda í húsnæðismálum hafa einungis nokkur hundruð lán verið veitt á tæpum þremur árum. Á löngum stundum hefur ekki ein einasta íbúð á höfuðborgarsvæðinu uppfyllt skilyrði reglugerðarinnar og tekjumörk umsækjenda lítið hærri en lögbundin lágmarkslaun,“ skrifar Guðmundur Hrafn Arngrímsson formaður Leigjendasamtakanna í grein á Samstöðinni sem fjallar um hlutdeildarlánin.
Þar segir hann að hugmyndin um hlutdeildarlán hafi komið fyrst fram á haustmánuðum 2019 og í því tilefni heimsótti þáverandi félagsmálaráðherra Ásmundur Einar Daðason kollega sinn Kevin Stuart húsnæðismálaráðherra Skotlands til að læra um þetta nýja kerfi. Guðmundur Hrafn segir að Skotar hafi innleitt áþekkt kerfi nokkrum árum fyrr sem hafi reynst þeim vel. Það eru þó nokkur grundvallaratriði sem skilja hið skoska kerfi frá hinu íslenska afbrigði. Skosku hlutdeildarlánin þarf til dæmis eingöngu að greiða upp velji lántakandinn að selja húsnæðið, það er því með öðrum orðum ótímabundið. Að sama skapi eru leigjendur í skilgreindum forgangshópi fyrir lánin í Skotlandi ásamt öðrum hópum sem standa veikt á húsnæðismarkaði.
Guðmundur Hrafn fer yfir í greininni hvernig íslensk útfærsla á þessari hugmynd hafi í raun skemmt hana og gert hana óhagstæða þeim sem taka lánin, sem er yngstu og fátækustu kaupendurnir á húsnæðismarkaði. Hann dregur upp dæmi um hversu kostnaðarsöm og erfið endurgreiðsla þessa fólks getur orðið á láninu sem ríkið veitir, nánast óyfirstíganleg.
„Hin sér íslenska útfærsla á annars góðri hugmynd er því sérlega ófyrirleitin leið til að draga á það heilagasta sem við öll eigum sem er vonin um velferð og þráin eftir húsnæðisöryggi. Andúð stjórnvalda á fátækum sem birtist í reglugerðinni um hlutdeildarlán er sem meitluð í stein og við blasir á sama tíma skjaldborg um fjárfesta og eignafólk,“ skrifar Guðmundur Hrafn.
Farsælast væri ef stjórnvöld sýndu frekar almenningi hollustu með því að því draga úr fjármálavæðingu húsnæðismarkaðarins, sýna ábyrgð og efna lögbundnar skyldur sýnar um öryggi og jafnræði á húsnæðismarkaði. Á sama hátt og sveitarfélög ættu að efna sínar lögbundnu skyldur og tryggja nægilegt framboð á leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði. Það er mikilvægt að almenningur átti sig á hvernig er í pottinn búið og hverra hagsmuna er verið að gæta á húsnæðismarkaði,“ endar Guðmundur Hrafn grein sína.
Hér má lesa grein Guðmundar Hrafns: Svikalogn við gálgann