Slóttug klíka siðblindra manna hefur stýrt Íslandi frá lýðveldi: „Í hnotskurn er samfélagið rotið“

Kristján Hreinsson rithöfundur vakti upp nokkra úlfúð á dögunum þegar hann skrifaði um transmálefni og var í kjölfarið rekinn úr starfi sínu við Endurmenntun Háskóla Íslands. Nú skrifar hann nýjan pistil þar sem hann segist varla geta talið sig með Íslendingum lengur, samfélagið sé einfaldlega rotið frá botni og upp úr. Að vísu sé rotnunin mest í efri lögum samfélagsins en Kristján segir að sama klíkan hafi stjórnað öllu frá lýðveldi. Sú klíka heitir Sjálfstæðisflokkurinn.

Hér fyrir neðan má lesa pistil Kristjáns í heild sinni.

Síðustu vikurnar hafa kennt mér margt. Ég var rekinn úr starfi fyrir að tala íslensku. Ég hef orðið fyrir miklu aðkasti vegna þess að ég vil ekki leyfa örhópum að vaða yfir mig á skítugum skónum. Fólk hefur ráðist að mér með slíku offorsi að ég hef hreinlega verið gáttaður. Ein barnalega leiðin er að ráðast að mér sem skáldi, láta í það skína að ég sé lélegt skáld, að ég sé ekki skáld og að ég muni aldrei fá viðurkenningu á Íslandi. Ég hef fækkað „vinum“ á Facebook og fengið aðra og betri í þeirra stað. Reyndar er mér yfirleitt nákvæmlega sama um þann hug sem fólk ber til mín. Ég þarf ekki vegtyllu eða stall. Ég er engum háður og hef einvörðungu hugsjónir mínar sem leiðarljós.

          Þegar maður fær að reyna viðbjóðinn á eigin skinni þá er eðlilegt að hjartað taki kipp og í framhaldinu er eðlilegt að hugurinn vegi og meti stöðuna. Ég hef komist að niðurstöðu sem sýnir mér að í hjarta mínu er ég hættur að vera Íslendingur. Innri sannfæring mín leyfir mér ekki þann munað að tilheyra hjörðinni af heilum hug. Í hnotskurn er samfélagið rotið frá botni og upp úr. Reyndar er rotnunin mest í samþjöppuninni í efstu hæðum. Mig langar að nefna nokkur dæmi máli mínu til stuðnings. Ég hef úr þúsundum dæma að moða en læt hér örfá fylgja:

1.    Íslendingar eiga fjármálaráðherra sem hefur fengið að selja vinum og fjölskyldu eignir ríkisins. Fjölskyldan hefur hagnast um þúsundir milljóna í gegnum löglega glæpastarfsemi, afskriftir og magnaða röð ógeðfelldra atvika.

2.    Fiskurinn í sjónum umhverfis landið er á skrá sem eign örfárra einstaklinga. Kvótakerfið er rotið stýrikerfi peningaflæðis. Fiskurinn er í eigu þjóðarinnar en þjóðin ræður engu um flæði peninganna.

3.    Íslendingar eiga nýja stjórnarskrá sem getur skapað réttlæti og sátt. Þjóðin samþykkti þessa stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu en þing og valdaklíka halda stjórnarskránni í gíslingu.

4.    Biskup Íslands fremur lögbrot og lætur undirmann sinn gera við sig ráðningasamning.

5.    Einn ráðherra hefur verið staðinn að innbrotum en nýtur verndar og reynt er að fela slóð glæpanna.

6.    Lífeyrissjóðakerfið á Íslandi er rekið eins og peningaleikur, þar sem vildarvinir fá að njóta peningaflæðis án tillits til þess hvort arður heildarinnar er tryggður eður ei.

7.    Tryggingastofnun á að greiða öllum Íslendingum ellilífeyri. Allir Íslendingar greiða í þann sjóð. En vegna þess að fólk greiðir einnig í lífeyrissjóð þá skerðir Tryggingastofnun greiðslur til fólks. Ellilífeyrisþegar, öryrkjar og flestir þeir sem vel ættu að njóta þurfa að lepja dauðann úr skel.

8.    Húsnæðislánakerfið á Íslandi er reyndar ekkert annað en hrein glæpastarfsemi – rekin með okurlánum og hagnaðardrifinni eignastýringu sem stjórnað er af auðvaldsklíku.

9.    Dómskerfi, sýslumönnum, yfirmönnum lögreglumála, Ríkisútvarpi og yfirleitt allri stjórnsýsla er meira og minna stýrt frá Valhöll, höfuðstöðvum Sjálfstæðisflokksins.

10.    Vöruverð á íslandi, húsaleiga og allt sem virkilega getur komið við pyngju fólks er alltaf í hæstu hæðum. Allir innviðir menntakerfis, heilbrigðiskerfis og velferðarmála eru meira og minna í molum og bíða einkavinavæðingar.

11.    Öll stjórnsýsla logar – stafnanna á milli – af spillingu, sjálftöku, frændhygli og því sem þykir sjálfsagður viðbjóður á Íslandi.

12.    Yfirleitt allt styrkjakerfi, öll útboð, öll fjármögnun, allar orðuveitingar, öll listamannalaun og allt sem hefur með peningaflæði og upphefð að gera er undir beinni eða óbeinni stjórn Sjálfstæðisflokksins.

Ég gæti haldið lengi áfram. Hrunið kenndi Íslendingum akkúrat ekkert. Í fylkingarbrjósti er elíta stjórnmálamanna, slóttug klíka siðblindra manna sem skipta á milli sín þjóðarköku og hafa engan áhuga á velferð þjóðarinnar. Sama klíkan hefur verið við völd allt frá stofnun lýðveldis 1944 og ekki sér fyrir endann á íslenska undrinu.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí