Samstöðin spurði fólk út í spillingu á Íslandi, Bjarna Ben og um þróun samfélagsins. Flestir hafa fengið nóg af spillingunni og vilja Bjarna burt.
Við spurðum fólk hvort Bjarni Ben ætti að pakka saman. Mara Birna Jónsdóttir svaraði „Hann hefði átt að pakka saman fyrir löngu.“
Það stóð ekki á svörum hjá Gísla Einarssyni: „Þau eiga ekki að hafa svona mikil pólitísk völd, valdið á að vera hjá almenningi. Hlutfallslega. Þannig að ríka eitt prósentið á bara að hafa 1% valdsins.“ Hann vill að fólk hætti að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. „Sjálfstæðismenn styðja alveg atvinnuframtakið og frelsi og lýðræði en þeir eru líka að styðja bara sína eigin klíku. Ef þú ert ekki í klíkunni, þá ertu bara úti og þá græðirðu ekkert á því að kjósa þá.“
Við spurðum líka aðeins út í það hvort fólk teldi að samfélagið væri að þróast í rétta átt. Magnús Víkingur Grímsson, sem hefur verið tíður gestur hjá okkur í vikunni, sagði „Ég hef ekki spökulerað mikið í því en ég finn það bara á sjálfum mér að ég er að þróast í rétta átt og þess vegna er ég að gera mér vonir um að aðrir séu að því líka.“