Raila Odinga, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Kenýa, hefur kallað eftir þriggja daga mótmælum þar í landi. Hann kallar eftir mótmælum gegn efnahagsaðgerðum sitjandi ríkisstjórnar, en hún hækkaði nýverið töluvert skatta, t.d. á ýmsar vörur, eins og bensín og húsnæði, sem og tekjur.
Núverandi forseti, William Rutto, skrifaði undir nýju skattalögin 26. júní. Á sama tíma er forsetakosningunum á síðasta ári mótmælt, en Odinga og fylgjendur hans vilja meina að ekki hafi verið staðið rétt að þeim.
Mótmælin koma í kjölfar tveggja annarra mótmælahrina á árinu. Odinga útilokar ekki að enn fleiri mótmæli verði haldin eftir þessi.
Samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum voru 23 drepnir af lögreglunni í mótmælunum í Kenýa í síðustu viku, ásamt því að tugir slösuðust. Nokkrir meðlimir stjórnarandstöðunnar voru einnig handteknir. William Rutto hefur sagt að hart verði tekið á þessum mótmælum.
Sendiherra Bandaríkjanna í Kenýa, Meg Whitman, hrósaði nýju lögunum, þar sem að þau gerðu Bandaríkjunum „óhætt að fjárfesta í landinu.“