Valdarán virðist hafa orðið í Vestur-Afríku landinu Níger. Hermenn birtust fyrr í dag í ríkissjónvarpinu þar í landi og tilkynntu að þeir hefðu komið forsetanum, Mohamed Bazoum, frá völdum. Tilkynningin í ríkissjónvarpinu kom nokkrum klukkutímum eftir að nokkrir meðlimir í öryggisvarðasveit forsetans handsömuðu hann í forsetahöllinni.
Amadou Abdramane, herforingi í her Níger, las upp tilkynningu í ríkissjónvarpinu þar sem hann sagði að „við, varnarmála- og öryggissveitirnar, höfum ákveðið að binda endi á stjórn þína“. Sagði hann ennfremur að þetta væri vegna stöðugrar hnignunar í öryggi landsins, ásamt óstjórn í félags- og efnahagsmálum. Að lokum sagði hann að nýja stjórnin stæði þó við allar skuldbindingar landsins.
Í tilkynningunni má sjá Abdramane sitja í stól fyrir framan níu aðila í herbúningum.
Búið er að loka landamærum landsins og lýsa yfir útgöngubanni sem á við í öllu landinu.
Ekki mikið meira er vitað enn sem komið er, en Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur þó gefið út tilkynningu þar sem kallað er eftir að Mohamed Bazoum, forseti Níger, verði leystur úr haldi tafarlaust.