Ef ekki semst í kjaradeilu sameinaðs félaga kvikmynda- og sjónvarps- og útvarpsleikara við stúdíóin í Hollywood mun verkfall hefjast á miðnætti á Kalifornískum tíma. Það bætist þá á við verkfall handritshöfunda sem staðið hefur síðan í byrjun maí.
Verkfall handritshöfunda hefur þegar stöðvað að mestu útsendingar spjallþátta þar sem hnyttyrði stjórnenda eru samin af hópi handritshöfunda. Þær þáttaraðir og kvikmyndir sem eru í tökum eru eftir handritum sem voru tilbúin fyrir verkfallið, en með tímanum mun verkfall handritshöfunda stöðva framleiðslu alls nýs efnis. En ef leikarar fara í verkfall á miðnætti mun öll framleiðsla stöðvast. Ljósin verða slökkt í Hollywood.
Kvikmyndabransinn er ógnarstór í Bandaríkjunum. Um 122 þúsund fyrirtæki eru með um 2,4 milljón starfsmanna á launum. Launagreiðslur eru um 25 þúsund milljarðar árlega, 6,5 föld landsframleiðsla á Íslandi.
Þetta er í fyrsta sinn síðan 1960 sem leikarar og handritshöfundar fara í verkfalli á sama tíma. Þá var háð árangursríkt verkfall sem tryggði leikurum greiðslur fyrir endursölu á efni, svo sem þegar bíómynd var seld sjónvarpsstöð. Þá tókst leikurum einnig, undir forystu formanns síns Ronald Reagan, að ná í gegn launagreiðslum í sumarfríum og veikindum.
Nú eru kröfurnar af svipuðum meiði. Leikarar vilja tryggja rétt sinn gagnvart tæknibreytingum, svo sem gervigreind sem getur notað útlit þeirra og raddir til að búa til nýtt efni. Kröfur handritshöfunda snúa að því sama, að það efni sem þeir hafa samið sé ekki sturtað ofan í síló gervigreindarmaskína sem síðan æla út úr sér nýju efni, sem byggir ekki á neinni sköpun en aðeins endurvinnslu á eldra efni.
Gríðarleg samstaða er meðal leikrara og handritshöfunda. Margir leikarar hafa tekið þátt í verkfallsvörslu með handritshöfundum. Á myndinni hér að ofan má sjá hina 85 ára Jane Fonda við verkfallsvörslu í síðustu viku. Þegar verkfallsboðun var borin undir leikara greiddu 98% atkvæði með verkfalli.