Unglingsstúlka varpar öndinni þungt á meðan hún sést halla sér á dýnu í herbergi séð innan um dyragætt úr stofu. Hún heitir Kenzi og er sextán ára. Þau Kevin bróðir hennar skiptast á að sofa brot og brot úr degi á dýnunni. Í íbúðinni eru ekki dýnur fyrir alla. Þau eru orðin þreytt og vondauf. Þetta er fjölskylda í leit að vernd sem hefur fengið að dvelja hér á landi langleiðina í ár og fengið smjörþefinn af því að búa við mannsæmandi skilyrði.
Blaðamaður fékk að heimsækja Yassa fjölskylduna frá Egyptalandi sem sem kom í viðtal á Samstöðina þann 25. júní sl. þá orðin örvæntingarfull vegna skilaboða frá stoðdeild ríkislögreglustjóra þrátt fyrir að opnun umsóknar um efnislega meðferð væri í sjónmáli.
Yassa fjölskyldan hefur verið á flótta í 5 ár og þar af þurft að lifa í „ sannkölluðu helvíti “ í flóttamannabúðum á Grikklandi í 3 ár eins og fram kom í viðtalinu við þau í júní og óttinn við að fara þangað aftur er augljós. Fyrir þann tíma var líf þeirra í heimalandinu óbærilegt en þau voru ofsótt heima fyrir vegna Koptísku trúar sinnar og nútímalegra lífshátta.
Hjónin Samir og Maria eru hárgreiðslufólk og fjölskylduna langar til að vera gagnlegir skattgreiðendur hér á landi, læra íslensku og fá að aðlagast samfélaginu, vinna og senda unga fólkið í skóla. Þetta er fólk eins og ég og þú, sem hefur gaman af dýrum og skemmtilegum sögum úr hversdagslífinu en sem hætti lífi sínu ítrekað til að freista þess að fá að lifa í friðsemd og með reisn.
Fjölskyldan átti rétt á efnislegri málsmeðferð í byrjun mánaðarins en var hótað brottflutningi nokkrum dögum fyrr. Ekkert hefur heyrst frá Útlendingastofnun þennan mánuð sem liðinn er og Reykjavíkurborg reynir að svelta hælisleitendur úr felum. Það gerir borgin með því að skrúfa fyrir framfærsluaurinn á fyrsta degi og skipta um skrá í bráðabirgðahúsnæðinu sem fólkið dvaldi í. Húsnæðinu sem það þurfti að yfirgefa skyndilega og þar sem það geymdi aleigu sína. Myndirnar sínar, fötin, teikningar krakkanna, einkunnir og viðurkenningar. Félagsþjónustan hefur raunar hert skipulagið eftir að nýju lög Jóns Gunnarssonar tóku gildi og er félagsráðgjöfum uppálagt að sýna staðfestu.
Dæmi eru um að peningar sem þegar hafa safnast á reikning hælisleytenda ef þeir hafa lifað spart hafi verið bakfærðir aftur þaðan svo tryggt sé að fólk fái ekki að borða á kostnað yfirvalda. Það þarf vart að taka það fram að framfærsla fólks sem ekki má vinna er nauðsynleg en Íslenska þjóðin er aðili að Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna, Mannréttindayfirlýsingu sameinuðu þjóðanna og Mannréttindasáttmála Evrópuráðsins.Mannréttindi og mannhelgi virðast því mega síns lítils fyrir stjórnvöldum.
Þrír einstaklingar voru sendir til Grikklands í vikunni samkvæmt heimildum Samstöðvarinnar en þar ríður yfir árleg hitabylgja sem er tveimur og hálfri gráðu hærri en gengur og gerist vegna loftslagsbreytinga. Fólk sem áður hefur dvalið í flóttamannbúðum þar í landi og fengið stöðu flóttafólks er hiklaust sent aftur til baka í skjóli Dyflinarreglugerðarinnar þrátt fyrir að það fari beint á götuna í Grikklandi. Segja má að Dyflinarreglugerðin sé misnotuð hér á landi enda var henni ætlað að vernda fólk en ekki stofna lífi þess í hættu. Ótti Yassa fjölskyldunnar er ekki úr lausu lofti gripinn.
Í mánuð hafa þau Samir, Maria, Kevin og Kenzi þurft að stytta sér stundir eins og fangar lokuð bak við luktar dyr og haft lítið fyrir stafni. Biðin er erfið enda andlitslaust fólk sem starfar með hertri útlendingalöggjöf að leiðarljósi með líf þeirra í höndum sér.
Þetta gætu verið ég og þú hvenær sem er í óstöðugum heimi.
Myndin er af þeim systkinum Kenzi og Kevin en bakgrunnur hefur verið afmáður.
Ef þú vilt hjálpa fólki á flótta, hafður samband við Rauða krossinn, Solaris Hjálparsamtök, Réttur barna á flótta, No border, Unicef á Íslandi eða ef þú vilt veita upplýsingar um einstök mál, hafðu samband við blaðamann í gegnum netfangið maria@samstodin.is