Á sjötta tug opinberra starfsmanna í vinnu við að koma málstað Sjálfstæðisflokksins á framfæri

„Sam­kvæmt minni laus­legu taln­ingu er að lág­marki á sjötta tug manna í fullu starfi (flest­ir hjá hinu op­in­bera) við að koma málstað Sjálf­stæðis­flokks­ins á fram­færi og efla starf­semi hans. Þetta er dágóður fjöldi þegar horft er til smæðar sam­fé­lags­ins. Þeir sem halda lykl­un­um að völd­un­um í flokkn­um verða að spyrja sig hvort all­ur þessi mannauður sé vel nýtt­ur og hvort óbreytt­ir stjórn­ar­hætt­ir séu til þess falln­ir að tryggja flokkn­um gott braut­ar­gengi í næstu kosn­ing­um,“ skrifar Helgi Áss Grét­ars­son borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Mogga dagsins.

„Laug­ar­dag­inn 26. ág­úst næst­kom­andi held­ur Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn flokks­ráðsfund en á milli lands­funda er flokks­ráðsfund­ur valda­mesta sam­koma flokks­ins. Von­andi átta nægj­an­lega marg­ir fund­ar­menn sig á því að gæslu­menn borg­ara­legra afla í land­inu verða að láta hug­sjón­ir sjálf­stæðis­stefn­unn­ar sjást í verk­um sín­um. Þótt mála­miðlan­ir séu hluti af stjórn­mál­um þá mega þær ekki éta upp allt það sem Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn á að standa fyr­ir,“ heldur Helgi Áss áfram. „Það er ein­fald­lega komið nóg af því að vinst­ris­innaður áróður rugli sjálf­stæðis­menn í rím­inu og skerði sjálfs­traust þeirra. Hug­mynda­fræði hægrimanna er nefni­lega þeirra beitt­asta vopn.“

Í gær birtist könnun Maskínu sem sýndi 17,6% fylgi Sjálfstæðisflokksins, en flokkurinn fékk 24,4% í kosningunum fyrir tæpum tveiimur árum. Fékk 36,6% í síðustu kosningunum fyrir Hrun, mælist í dag með minna en helming þess fylgis. Réttur samanburður væri hins vegar skoðanakannanir fyrri ára, en í þeim mældist Sjálfstæðisflokkurinn iðulega vel yfir 40%. Ástæða þess að flokkurinn mældist sterkari í könnunum en í kosningum var líklega sú að það þótt normal að nefna Sjálfstæðisflokkinn, að styðja hann var álitin almenn og viðurkennd afstaða. Sú er ekki raunin lengur, Sjálfstæðisflokksfólk er komið í vörn og á æ erfiðara með að verja afstöðu sína.

Gagnrýni Helga Áss sprettur úr þeirri stöðu eins og gagnrýni annarra sem hann nefnir í greininni. „Nú­ver­andi staða Sjálf­stæðis­flokks­ins er áhyggju­efni og framtíðar­horf­ur hans mættu vera bjart­ari. Þetta stöðumat þarf vart að út­skýra. Að sinni er látið duga að vísa í töl­ur skoðanakann­ana sem birt­ar hafa verið á þessu ári um fylgi stjórn­mála­flokka á landsvísu og ný­leg­an mál­flutn­ing ým­issa reynslu­bolta, sbr. t.d. efni sem Brynj­ar Ní­els­son og Elliði Vign­is­son hafa látið frá sér fara. Grein Björns Jóns Braga­son­ar frá 13. ág­úst sl., sem bar heitið „Að leita upp­run­ans“, varp­ar einnig ljósi á hvernig viss­ir mik­il­væg­ir þætt­ir í starfi Sjálf­stæðis­flokks­ins hafa breyst í tím­ans rás,“ skrifar Helgi Áss, sem sver sig í ætt við þá sem hann vitnar til, manna sem virðast sannfærðir um að Sjálfstæðisflokkurinn geti endurheimt tapaða stöðu í íslenskum stjórnmálum með því að tala með sama hætti og árangursríkt var fyrir hálfri öld, eins og ekkert hafi breyst síðan þá nema forysta Sjálfstæðisflokksins.

Flokksráðsfundur Sjálfstæðisflokksins verður á laugardaginn. Gagnrýnendur forystu flokksins líta á þann fund sem einskonar úrslitaorrustu, síðasta möguleikann til að fá forystu flokksins til að leggja fram kröfur um afgerandi stefnubreytingu innan ríkissrjórnar. Forysta flokksins lítur til fundarins sem vettvang til að sækja aukið umboð til að áframhaldandi stjórnarsamstarfs í krafti þess að ekkert skárra sé í boði. Og að það sé alltaf betra að hanga á völdunum, þótt skert séu, en að hætta á að missa þau í von um að auka þau.

Formaður Sjálfstæðisflokksins er formaður flokksráðs og varaformaður Sjálfstæðisflokksins að sama skapi varaformaður flokksráðsins. Ráðið er nokkuð fjölmennt en miðstjórn flokksins, framkvæmdastjórn, fjármálaráð, upplýsinga- og fræðslunefnd, stjórn sveitarstjórnarráðs, formenn félaga og fulltrúaráða, starfsmenn flokksins í fullu starfi, formenn málefnanefnda, alþingismenn og frambjóðendur til alþingiskosninga og fyrrum kjörnir alþingismenn flokksins eru allir sjálfkjörnir í flokksráðið ásamt kjörnum sveitarstjórnarmönnum og frambjóðendum í aðalsætum til sveitarstjórnarkosninga. Þá skipa kjördæmisráð og landssambönd fulltrúa í ráðið.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí