Krafa Amazon um að starfsfólk mæti á skrifstofur minnst þrjá daga í viku mætir mótspyrnu

Bandaríska stórfyrirtækið Amazon hefur tekið upp eftirlit með því hvort skrifstofustarfsmenn þess mæta á skrifstofur sínar til starfa og senda viðvaranir til þeirra sem fóru þangað sjaldnar en þrisvar í viku, í fimm eða fleiri vikur af undanliðnum átta vikum. Í aðvörun sem starfsfólki berst þá með tölvupósti segir: „Við gerum ráð fyrir að þú takir nú að mæta á skrifstofuna þrjá eða fleiri daga í viku.“ Þetta kom fram í umfjöllun FT.

Stærstu tæknifyrirtæki Bandaríkjanna halda áfram viðleitni sinni til að fá starfsfólk til að snúa aftur á skrifstofur fyrirtækjanna. Þegar sóttvarnir vegna heimsfaraldursins stóðu sem hæst og fjölmargir vinnustaðir stóðu tómir í þágu smitvarna, gerðu sér margir grein fyrir kostum þess að starfa heldur heiman frá sér. Work-from-home varð svo útbreitt fyrirkomulag að yfirleitt er nú vísað til þess með skammstöfuninni WFH. Þeim sem heldur vilja vinna að heiman nefna tímasparnað, aukið sjálfsforræði og minni hættu á alvarlegum smitsjúkdómum. Mörgum stærri fyrirtækjum reynist enn erfitt að fylla starfsstöðvar sínar aftur.

Jafnvel Zoom vill nú fá starfsfólk aftur tvo daga í viku

Amazon tók upp þá stefnu að skrifstofustarfsfólk skuli mæta að minnsta kosti þrjá daga í viku síðastliðið vor. Hundruð starfsmanna efndu þá til útifunda þar sem kröfunni var mótmælt. Google krefst þess sama af sínu starfsfólki. Þá þótti tíðindum sæta þegar Zoom, fyrirtækið sem varð frægt á einni nóttu, svo að segja, fyrir hugbúnað sem auðveldaði fólki að halda fundi netleiðis, tók upp þá stefnu í þessari viku að starfsfólk skyldi koma á skrifstofuna minnst tvisvar í viku.

Réttindasamtök sem starfa í þágu launafólks segja að þessi þrýstingur fyrirtækjanna um hvar fólk vinnur vinnu sína sé líklegt til að styrkja verkalýðshreyfinguna sem hefur nýverið tekið að hasla sér völl í tækniiðnaðinum, þar sem fjöldi starfsfólks hefur meðal annars tekið höndum saman um mótspyrnu gegn þessum þrýstingi fyrirtækja um mætingu á sameiginlegan vinnustað. Ljósmyndin sem fylgir þessari frétt er tekin á mótmælasamkomu skrifstofustarfsfólks Amazon í Seattle gegn kröfum fyrirtækisins um mætingu, þann 31. maí sl.

Halda sig meðal annars frá vinnustöðum til að forðast smit

Í umfjöllun The Guardian um málið er bent á að yfirstandandi átak Amazon í þessum efnum fari nú fram á sama tíma og ný Covid-19 bylgja breiði úr sér í Bandaríkjunum. Þar eins og víðar er gögnum hvorki safnað né miðlað með sama hætti og þegar sóttvarnir stóðu hæst, en sjúkrahúsinnlögnum af völdum sjúkdómsins fjölgaði um 12,5 prósent í liðinni viku og dauðsföllum um 10 prósent, hefur miðillinn eftir CDC, sóttvarnastofnun Bandaríkjanna. Þetta á við víðar, hér á Íslandi virðast smit einnig vera í uppsveiflu, en ekki er vitað til að starfsfólk hérlendra fyrirtækja hafi tekið höndum saman um kröfur í þágu smitvarna.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí