Fleiri Covid-smit greindust á Íslandi undir lok júlí en í fyrri vikum sumarsins

Engin áform eru uppi um að kveða SARS 2, veiruna að baki Covid-19, í kútinn hér eða annars staðar. Það er því ekki óvænt að útbreiðslan haldi áfram að ganga í bylgjum, þó vægari séu en á hápunkti heimsfaraldursins. Í ljósi þess að fréttir hafa tekið að berast af uppsveiflu Covid-sýkinga og tengdra sjúkrahúsinnlagna í Bandaríkjunum og víðar, hafði blaðamaður í liðinni viku samband við embætti Landlæknis til að spyrjast fyrir um stöðu faraldursins hér á landi. Anna Margrét Halldórsdóttir, yfirlæknir sóttvarnasviðs, varð fyrir svörum.

Flestar jákvæðar greiningar í vikunni 17.-23. júlí

Spurð hvort embættið hafi orðið vart við uppsveiflu í sýkingum hér á landi í sumar, svaraði Anna Margrét því til að undanliðna þrjá mánuði hafi reyndar mesti fjöldi jákvæðra greininga verið undir lok tímabilsins, í vikunni 17.–23. júlí, þegar 35 greindust með Covid-19. Svarið sendi hún blaðamanni þann 1. ágúst, svo mögulega var þetta síðasta heila vikan í gögnunum að baki svarinu. Þegar jákvæðar greiningar á einni viku voru fæstar á þessu tímabili voru þær að sögn yfirlæknisins sjö. Ekki kom fram í svarinu hvaða vika það var.

Hún bætti því þó við að óvarlegt væri að skoða sveiflur milli vikna, þar sem greiningar séu svo fáar um þessar mundir, enda aðgangur almennings að PCR-greiningum utan sjúkrahúsa ekki greiður. Flest sýni sem tekin eru til greiningar berast nú frá Landspítala. Í ljósi þess hve gögnin eru takmörkuð sagði Anna Margrét ráðlegra að bera saman heila mánuði en vikur, til gera ekki of mikið úr frávikum eða sveiflum milli vikna sem ekki er víst að séu marktækar. Mánuð fyrir mánuð sagði hún fjölda jákvæðra greininga lítið hafa breyst á tímabilinu.

Anna Margrét Halldórsdóttir, yfirlæknir sóttvarnasviðs Landlæknis.

Ekki eins nákvæm mynd af dreifingu nú

Aðspurð nánar út í það hvort og hvernig fylgst er með útbreiðslu faraldursins um þessar mundir svaraði Anna Margrét því til að sóttvarnalæknir vakti Covid-19 greiningar, en brýndi aftur að mikilvægt væri að hafa í huga að fjöldi þeirra sem fer í Covid-19 sýnatöku hefur farið lækkandi síðustu mánuði. „Þar af leiðandi hefur sóttvarnalæknir ekki eins nákvæma mynd af dreifingu Covid-19 í samfélaginu og meðan faraldurinn stóð sem hæst og sýnatökur voru almennar,“ sagði hún til útskýringar.

Hérlendis hefur skimun á skólpi verið beitt til að fylgjast með útbreiðslu vímuefna en víðsvegar um heim er sömu aðferð beitt til að fylgjast með útbreiðslu smitsjúkdóma. Anna Margrét segir ekki hafa verið ákveðið að beita þeirri aðferð til að fylgjast með stöðu faraldursins hérlendis, enda séu það „tæknilega sérhæfðar og kostnaðarsamar rannsóknir sem þyrfti að skoða vel áður en ákvörðun væri tekin.“

Engar nýjar leiðbeiningar til að vernda viðkvæma hópa

Ef aukinn fjöldi greindra sýkinga undir lok júlímánaðar var ekki hending heldur til marks um aukna útbreiðslu, er þó ósennilegt að verslunarmannahelgin hafi hægt á þeirri þróun. Hvort sem tilefni verður til að tala um bylgju nú eða síðar, er sú spurning enn vakandi hvernig verja má viðkvæma hópa fyrir sjúkdómnum. Hafa verið gefnar út einhverjar nýjar leiðbeiningar um hvernig best þykir að gæta að öryggi þeirra til lengri tíma? Má búast við uppfærðum bóluefnum með haustinu, nýjum viðmiðum um loftræstingu eða öðrum leiðbeiningum og ráðum, spurði blaðamaður. Anna Margrét svaraði þeirri spurningu aðeins með tilvísun á vefsíðu Sóttvarnalæknis, þar sem finna má leiðbeiningar. „Stöðugt er fylgst með nýjum afbrigðum veirunnar,“ bætti hún við, „meðal annars með tilliti til þróunar bóluefna“ en búast megi við fréttum af uppfærðum bóluefnum með haustinu.

Spurð hvaða ráðstafanir eru nú gerðar til að koma í veg fyrir að fólk verði fyrir Covid-smitum innan heilbrigðiskerfisins, það er innan sjúkrahúsa og á heilsugæslustöðvum, vísaði yfirlæknirinn á þær leiðbeiningar sem gefnar voru út fyrir heilbrigðisstarfsfólk um sýkingavarnir þegar faraldurinn stóð sem hæst og benti á þartilgerðan upplýsingavef. „Þó ber að hafa í huga að Covid-19 er ekki lengur talin bráð ógn við lýðheilsu samkvæmt WHO,“ bætti hún við og benti á frétt frá sóttvarnalækni þess efnis, frá 8. maí á þessu ári. „Faraldurinn er ekki yfirstaðinn þó neyðarástandi hafi verið aflýst en Covid-19 er orðið viðvarandi heilbrigðisvandamál líkt og gildir um inflúensu sem dæmi. Heilbrigðisstofnanir fylgja sínu verklagi um sýkingavarnir.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí