„Ást á hinseginleika en þessi kauphallarbjöllu-gjörningur …“

„Ást á hinseginleika og fjölbreytileika en þessi kauphallarbjöllu-gjörningur er að fljúga svolítið hátt yfir höfuðið á mér“ skrifar Facebook-notandi við deilingu fréttar RÚV undir hádegi í dag, þriðjudag, um aðkomu Nasdaq-hlutabréfamarkaðarins að dagskrá Hinsegin daga í ár.

Hinsegin dagar voru settir nú á þriðjudagsmorgun og verða án efa gleðiríkir að venju, enda er dagskráin fjölbreytt. Fyrsta frétt af hátíðinni fór þó öfugt ofan í einhverja, en undir hádegi birti RÚV fyrrnefnda frétt undir tveimur fyrirsögnum: „Hringdu Kauphallarbjöllu í nafni fjölbreytileikans“ og „Hringdu Kauphallarbjöllu í upphafi Hinsegin daga“. Í fréttinni má lesa – og sjá myndband af því – þegar bjöllu Nasdaq Kauphallarinnar var hringt á Skólavörðustíg í tilefni af upphafi Hinsegin daga.

„Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar og Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, hringdu bjöllunni,“ segir þar. Dagskrárliðurinn er kynntur á vefsíðu hátíðarinnar sem forskot á sæluna: „Hinsegin dagar í Reykjavík verða settir á hádegi 8. ágúst, en við tökum forskot á sæluna með því að hringja Kauphallarbjöllunni í nafni fjölbreytileikans þá um morguninn.“ Um hringinguna sáu upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar og forstjóri Ölgerðarinnar.

Hinsegin heift hafnar baráttu sem er hringd inn af Kauphöllinni

Eins og áður hefur komið fram á þessum vettvangi hefst hefst í dag einnig dagskrá hátíðarinnar Hinsegin heift, sem ýtt hefur verið úr vör með yfirlýsingu, þar sem aðstandendur segjast hafna „hugmyndafræði nýfrjálshyggju sem þrífst í skugga kapítalisma og veldur því að sífellt meira af grunnþjónustu samfélagsins færist í hendur einkaaðila“ og „síð-nýlendustefnu sem forgangsraðar vestrænu fólki, þjóðum og fyrirtækjum á kostnað almennings í hinu hnattræna suðri“.

Í yfirlýsingunni er hringing kauphallarbjöllunnar tilgreind sérstaklega: „Við stöndum fyrir hinsegin baráttu sem nær yfir allt hinsegin fólk, en ekki síst þau sem meirihlutasamfélagið hefur stimplað sem óæskileg og útskúfuð. Við höfnum hinsegin baráttu sem er markaðssett sem skemmtun fyrir síshet fjölskyldur landsins, hringd inn af Kauphöllinni og styrkt af Evrópusambandinu sem ber ábyrgð á einni mannskæðustu landamærastefnu heims.“

Ekki náðist í fulltrúa Hinsegin daga í síma um hádegisbil, þar sem hátíðardagskráin var í fullum gangi. Aðstandendur Hinsegin heiftar svara spurningum fjölmiðla aðeins með ábendingu á efni vefsíðunnar.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí