Bakland ferðaþjónustunnar vill frekar veiða hval en hlýða Hollywood

Svandís Svavarsdóttir mun í dag, fimmtudag, tilkynna um hvort hvalveiðibanni verður haldið til streitu eða það fellt niður þetta haust. Þrátt fyrir að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi tekið eindregna afstöðu til ótal afdrifaríkra átakamála vinstri- og hægriflokka undanliðin misseri, þá er nú látið í veðri vaka að örlög stjórnarinnar sjálfrar gætu öðru fremur ráðist af því hvað verður um hvalina.

Inn í þann titring bættust síðustu daga nokkrar nýjar raddir. Leonardo DiCaprio reið á vaðið á þriðjudag en á miðvikudag fréttist að heill hópur bandarískra leikara hafi lýst sig andsnúinn hvalveiðum Íslendinga, hvetji íslensk stjórnvöld til að banna hvalveiðar til frambúðar, og hóti að sniðganga ella Ísland sem vettvang kvikmyndaframleiðslu.

Mikil innviðauppbygging gæti skaðast

Fréttastofa Vísis ræddi við Baltasar Kormák leikstjóra um málið. Baltasar sagði marga í íslenskum kvikmyndaiðnaði hafa áhyggjur af afleiðingum hugsanlegrar sniðgöngu: „Það yrði skelfilegt fyrir íslenskan kvikmyndaiðnað ef þetta yrði til þess að verkefnin kæmu ekki hingað.“ Nefnt hefur verið í þessu samhengi að erlendir aðilar fjárfesti fyrir um 150 milljónir dala í kvikmyndaverkefni á Íslandi árlega, eða um 20 milljarða króna. Baltasar sagði í samtali við Vísi að þessi fjárhæð væri raunhæf og gæti jafnvel verið hærri. „Það er mikið undir og það er búin að vera mikil innviðauppbygging í bransanum sem gæti skaðast af þessu. Menn hafa verið að byggja til framtíðar í þessum bransa.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem DiCaprio lætur sig velferð hvala varða, en hann var meðal framleiðenda heimildamyndarinnar „The Loneliest Whale: The Search for 52“ sem kom út árið 2021 og fjallar um leitina að mest einmana hval í heimi. Baltasar sagðist hafa rætt við DiCaprio um málið, og heyrst að skoðun hans væri einlæg. Allt geti það sett af stað keðju, stjörnurnar hafi „feykilega mikil áhrif. Þeir hafa marga fylgjendur og það eru fleiri stjörnur sem munu fylgja þeim. Ég held að við verðum að taka þessu bréfi alvarlega.“

Þá sniðgöngum við Hollywood …

Ekki eru þó allir á einu máli um það. Í Facebook-hópnum Bakland ferðaþjónustunnar mátti á miðvikudag lesa heitar umræður sem fram fóru um málið. Helga nokkur deildi frétt Vísis með tilvitnun í lokaorð Baltasar Kormáks í fréttinni, en þar segir: „Þetta tilheyrir fortíðinni og er ákveðið „Bjarts í Sumarhúsum“ heilkenni sem við virðumst vera haldin. Að við ætlum að falla á þetta sverð og drukkna í þessum blóðdrullupolli frekar en að horfa til framtíðar. Það er verið að leggja iðnað að veði, ferðamannabransann, kvikmyndabransann og orðspor Íslands, fyrir ekki meiri hagsmuni.“

„Vilt þú semsagt láta „frægt“ fólk sem n.b. lifir í allt öðrum heimi en almenningur stjórna gjörðum okkar Íslendinga?“ spyr þá Árni nokkur ,sem segist aldrei hafa orðið var við andúð ferðamanna á hvalveiðum. Jóhann bendir Árna á að „þetta fólk hefur samt huge following af fólki sem lifir í sama heimi og við“. „Hafa þau ekki hótað þessu oft áður?“ spyr Sigurður, sem segist sér finnast eins og hann hafi heyrt það aftur og atur í gegnum tíðina. Marteinn stingur upp á að „við hættum að horfa á Hollywood kvikmyndir og aukum hvalveiðar“ sem yrði mikill sparnaður fyrir ríkið, „að þurfa ekki að ausa milljörðum í kvikmyndaiðnað“ – og bætir við blikkandi broskalli. „Þetta eru Ameríkanar sem eru akkúrat hvalveiðiþjóð,“ segir Gísli nokkur. „Verða þeir ekki bara að taka til heima hjá sér áður en þeir fara að skipta sér af hvað Íslendingar eru að gera?“

„Fari þau til fjandans,“ segir Ragnar. Haukur stingur upp á að Ísland sendi yfirlýsingu á móti um að hugsanlega hætti landið hvalveiðum „ef Ameríkanar hætta drápum á fólki og herða byssulögin sín.“ Bergþór minnist á smáhvalina sem Bandaríkjamenn drepa og höfrungadauða í fiskinaði þar. Andri segir að þetta sé „auðvitað rosaleg hræsni hjá þessu fólki“ sem ætti að „taka til heima hjá sér áður en þau fara að skipta sér af hvalveiðum annarra þjóða.“

Af hverju eru svona margir fúli Skúli?

Þaðan fer samræðan um víðan völl og rennur jafnvel út í sandinn. Andri nefnir að Bandaríkjaher sé til dæmis einn helsti umhverfissóði heims. „Annað sem þau gætu lagað,“ bætir hann við, „er gríðarlegt heimilisleysi og fátækt í Bandaríkjunum. Götuhorn hérna í BNA eru full af heimilislausu fólki sem líta út fyrir að vera einhvers konar afturgöngur frekar en fólk, vegna fíkniefnaneyslu og skorts á félagslegum úrræðum.“ Þá segir hann Bandaríkin fara um heiminn og fremja valdarán á hverju ári og arðræna þriðja heiminn, „svo ekki sé talað um lögregluna í BNA sem myrðir daglega fjölda fólks.“

Loks spyr Halldóra: „Af hverju eru svona margir fúli Skúli hérna að verja hvalveiðar? Spyr í alvöru, þykir þetta mjög sérkennilegt. Við græðum nákvæmlega ekkert á þessu, töpum frekar.“

Af helstu stoðum atvinnulífsins landsins má ætla að ferðaiðnaðurinn eigi einna mest undir orðspori og ásýnd og sé að því leyti frekar háður öðrum afþreyingariðnaði en til dæmis matvælaframleiðsla. Af þessari samræðu að ráða virðist þó ekki fjarstæðukennt að álykta að jafnvel þegar enga aðra röksemd er lengur að finna fyrir hvalveiðum, gæti það dugað einhverjum til að styðja þær að Hollywood-leikarar skuli reyna að blanda sér í deiluna.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí