Nýliðinn júlímánuður var að sögn Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO) heitasti mánuður sögunnar, svo vitað sé. Yfirborðshiti Norður-Atlantshafs var um leið umtalsvert hærri en nokkru sinni síðan rannsóknir hófust. Á sama tíma og hitabylgjur riðu yfir í Suður-Evrópu, suðurríkjum Bandaríkjanna, Mexíkó og Kína og víðar, og hiti mældist yfir 40°C í Bretlandi í fyrsta sinn, þá sýna gervihnattamyndir að Grænlandsjökull bráðnaði og hopaði umtalsvert meira en á meðalsumri.
Bráðnun Grænlandsjökuls er ekki aðeins fagurfræðilegt áhyggjuefni, heldur á meðal þeirra lykilatriða sem loftslagsvísindamenn hafa einna mestar áhyggjur af. Í fyrsta lagi speglar ísinn ljós og varpar þannig frá jörðinni sólarorku sem myndi valda aukinni hitnun ef hann vantaði. Þá hefur nokkuð verið fjallað um möguleg áhrif bráðnunar jökulsins á hafstrauma, sem nýleg rannsókn segir að sé yfirvofandi. Enn ein afleiðing af bráðnun jökulsins væri hækkun á yfirborði sjávar.
Og einmitt nú í þessum sama júlímánuði birtist í tímaritinu Science rannsókn sem sýnir hversu mikil þau áhrif hafa eitt sinn verið. Með athugunum á íslögum í jöklinum komust vísindamennirnir á snoðir um áhrif hlýindaskeiðs sem ríkti fyrir um 400 þúsund árum síðan. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar hefur bráðnunin sem þá varð nægt til að hækka sjávarmál í höfum jarðar um 1,4 metra.
Gögn frá gamalli herstöð
Rannsóknin var unnin var af teymi á vegum Vermont-háskóla, í eins konar samstarfi við Bandaríkjaher: það var upp úr miðri 20. öld, á dögum kalda stríðsins, sem herinn boraði göng í jökulinn og kom þar upp herbúðum og rannsóknarmiðstöð, neðanjökuls, svo að segja. Þar var meðal annars komið fyrir kjarnorkuveri. Þó að búðirnar hafi síðan verið yfirgefnar og kjarnakljúfurinn fjarlægður veldur úrgangur frá starfseminni enn umhverfisspjöllum.
En það er önnur saga: herinn boraði á sínum tíma tæplega einn og hálfan kílómetra niður í jökulinn, og dró þaðan upp um þriggja metra langt rör, fullt af jarðvegi og grjóti, sem varðveist hafði undir ísnum. Þetta sýni var geymt í frysti – geymt og gleymt – þar til árið 2017 að vísindamenn sýndu því áhuga. Og fundu þar ekki aðeins jarðveg heldur leifar af laufblöðum og mosa, minjar um íslaust landslag, jafnvel skóg.
Fyrir 400.000 árum voru engar borgir í hættu
Rannsóknir á þessu sýni og tengdum gögnum liggja til grundvallar greininni sem birtist í Science nú í júli, þar sem vísindamennirnir staðhæfa að Grænland hafi verið grænt land fyrir 400 þúsund árum. Vitað er að hlýindaskeiðið þá var aðeins lítið eitt heitara en það sem nú er þegar orðið af mannavöldum. Í rannsókninni er dregin sú ályktun að því megi vænta svipaðra afleiðinga af yfirstandandi hnatthlýnun: bráðnun Grænlandsjökuls og hækkun sjávarmáls um 1,4 metra.
Eins og Paul Bierman, einn vísindamannanna, orðar það, er munurinn sá að fyrir 400 þúsund árum var ekki um neinar borgir að óttast eða önnur mannvirki á láglendi.