Vaxandi óánægja leigusala í Bandaríkjunum með skilyrði og auknar reglur á skammtímaleiguvefnum AirBnB veltir upp athyglisverðum vanda við að berjast gegn skammtímaleigumarkaðnum.
Frétt um málið var birt á fréttavefnum FF7 í gær og var unnin úr umfjöllun Bloomberg.
Tilefni umfjöllunar Bloombergs var ráðstefna um 600 leigusala og fulltrúa fasteignafélaga til að hlýða á ráðgjafa sem heitir Jesse Vasques. Boðskapurinn var einfaldur, í ljósi þrenginga og skilyrða sem AirBnB hefur í vaxandi mæli verið neytt til að beita söluaðila á vefnum, af hálfu ýmissa borgaryfirvalda í Bandaríkjunum, þá er hagnaður braskaranna á AirBnB byrjaður að þverra. Ráðlegging Vasques var því að umræddir braskarar ættu í auknum mæli að bjóða skammtímaleigu á eigin forsendum í stað þess að fara í gegnum milliliði eins og AirBnB.
Nú vitum við hér á Íslandi að stór hluti þeirra íbúða sem eru á skammtímaleigumarkaði eru að brjóta lögin þar sem þau eru til leigu í lengri tíma en 90 daga samtals á ári. HMS birti þær tölur og sagði nærri því eitt þúsund slíkar íbúðir gerast brotlegar við lög. Vandamálið þar er að eftirlitið á Íslandi með þeim markaði er ekkert. Öllum skráningum, eftirliti og umsjón sinni einn starfsmaður hjá embætti sýslumanns, það er allt og sumt. Lögin þýða því ekki neitt þegar kerfið hefur innbyggt eftirlitsleysi á sama tíma.
Þessi frétt af ráðstefnu braskaranna sem eru að ókyrrast vegna hertra reglna og skilyrða – sem koma nota bene bara til vegna eyðileggjandi áhrifa skammtímaleigumarkaðarins á húsnæðismarkað almennings víða um heim – er því umhugsunarverð. Krafan hefur verið lengi upp af hálfu Leigjendasamtakanna sem dæmi um að gera skammtímaleigumarkaði alvarlegar skorður hér á landi eða einfaldlega banna hann nær alveg, utan útleigu á eigin heimili sem dæmi.
Yfirvöld hafa auðvitað hunsað það árum saman og leyft skammtímaleigu að grassera á sama tíma og húsnæðisskortur og húsnæðiskreppa gerir almenningi erfitt um vik að draga fram lífið á þessu skeri.
Ef svo ólíklegi vilji til að yfirvöld taki sig saman í andlitinu og geri það augljósa, sem er að banna alfarið skammtímaleigu til ferðamanna á meðan að húsnæðiskreppa ríkir, þá er ljóst að hugsa þarf í víðari skilningi en bara svo að samþykkja bann. Núgildandi lög eru reglulega hunsuð sem dæmi. Það þarf því að byggja upp öflugt eftirlit með slíkum markaði sem tryggir það að banni verði framfylgt og hlýtt. Auðvitað þyrfti að gera það nú þegar þar sem ljóst er að leigusalar á AirBnB eru margir hverjir að brjóta lögin sem stendur.
Þetta er þó eitthvað til að hafa í huga næst þegar fréttir berast af einhvers konar hertum reglum eða skilyrðum, hvort því fylgi raunverulegt eftirlit, sem tryggi að slíkum reglum sé fylgt.