„Djöfull megið þið skammast ykkar!“ segir Sema Erla við ráðamenn sem gætu brugðist við en gera það ekki

„Forréttindafólkið með völdin hittist í kaffi og kruðerí til þess að keppast um hver færi með sterkustu rökin fyrir fyrir því að bregðast ekki við. Þau sannfærðu hvort annað um að best væri að gera ekki neitt. Halda áfram að svelta varnarlaust fólk til hlýðni. Þau héldu svo áfram með daginn sinn, fóru svo í helgarfrí, heim í hlýja húsið sitt, til þess að njóta, borða og sofa.“

Þannig lýsir Sema Erla Serdaroglu, formaður Solaris, fundi dómsmálaráðherra, félags- og vinnumálaráðherra og fulltrúa sveitarfélaganna sem fram fór fyrir hádegi á föstudag. Samstöðin ræddi við Heiðu Björg Hilmisdóttur, formann Sambands íslenskra sveitarfélaga, um fundinn. Hún sagði fundinn hafa verið góðan og að þar hefðu allir verið sammála um að sveitarfélögunum bæri að óbreyttu ekki að aðhafast neitt í málinu.

Hjálparsamtökin Solaris hafa undanliðna viku lagt sig fram um að finna því fólki skjól sem úthýst var úr húsnæði Útlendingastofnunar í Bæjarhrauni á dögunum.

Smánarblettur á íslensku samfélagi

Samantekt Semu Erlu birtist á Facebook. Texti færslunnar er svohljóðandi, í heild:

„Í dag er vika síðan hópur af flóttafólki var sviptur allri þjónustu og hent á götuna af íslenskum stjórnvöldum, sviptur öllum möguleikum á því að uppfylla grunnþarfir manneskjunnar um þak yfir höfuðið, næringu og hreinlæti, svipt öryggi, rænd reisn sinni og allri von.

Það kom fljótt í ljós að um stærri hóp var að ræða en þann sem var skilinn eftir á gangstéttinni í Bæjarhrauninu fyrir viku og ég hef hitt einstaklinga sem hafa legið í gjótum, gróðri og görðum dögum og vikum saman, borðað upp úr ruslatunnum og ekki farið í sturtu eða skipt um föt í mjög langan tíma.

Margir hafa fundist og verið komið í tímabundið skjól, færður matur og matarkort og gefið færi á að þrífa sig og klæði sín. Þetta hefur gengið vegna sjálfboðaliðavinnu, stuðnings og framlögum fólks, fólks sem hefur boðið heimili sitt og húsnæði. Það mun þó auðvitað ekki ganga mikið lengur. Við erum ekki í stöðu til þess að sigrast á því neyðarástandi sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur bjó til og viðheldur.

Í dag, viku eftir að við heyrðum fyrst af heimilislausu flóttafólki á Íslandi héldu dómsmálaráðherra og félagsmálaráðherra fund með fulltrúum sveitarfélaga. Á fundinum var tekin ákvörðun um að bregðast ekki við þeirri neyð sem ríkir og hafa áfram heimilislaust og svangt flóttafólk á götunni á Íslandi.

Forréttindafólkið með völdin hittist í kaffi og kruðerí til þess að keppast um hver færi með sterkustu rökin fyrir fyrir því að bregðast ekki við. Þau sannfærðu hvort annað um að best væri að gera ekki neitt. Halda áfram að svelta varnarlaust fólk til hlýðni. Þau héldu svo áfram með daginn sinn, fóru svo í helgarfrí, heim í hlýja húsið sitt, til þess að njóta, borða og sofa.

Á meðan reynum við hin að komast að því hvort það séu ekki örugglega allir þarna úti enn á lífi!

Það ríkir mannúðarkrísa á Íslandi.

Þau sem eru með völd til þess að bregðast við en gera það ekki eru smánarblettur á íslensku samfélagi. Djöfull megið þið skammast ykkar!

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí