Sveitarfélög munu vísa réttindasviptu fólki … aftur í Bæjarhraun

Það var sameiginleg niðurstaða fundar dómsmálaráðherra, félags- og vinnumálaráðherra og fulltrúum sveitarfélaganna fyrir hádegi í dag, föstudag, að það sé á hendi ríkisins að leysa úr þeirri mannúðarkrísu sem upp er komin eftir að nýjar breytingar á útlendingalögum leiddu til þess að tugum fólks var úthýst úr úrræði Útlendingastofnunar í Hafnarfirði, og eru nú réttindasvipt á götunni.

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, sagði í samtali við Samstöðina að fundurinn hefði verið góður, sjónarmið allra hefðu komið þar fram, og ljóst að málið væri ekki á höndum sveitarfélaganna. Þá sagði hún að sveitarfélögin veittu þó ráð þeim sem þangað leituðu, og vísuðu þeim þá til ríkisins, í þessum tilfellum. Spurð hvað það þýddi, til hvaða stofnunar sveitarfélögin myndu vísa fólki, sagði hún að það væri í raun bara úrræðið við Bæjarhraun, þaðan sem þeim var, miðað við allar fréttir af málinu hingað til, áður úthýst.

Engin ráð í sjónmáli til að bregðast hratt við

Félagsmálaráðherra hefur staðfest það í samtölum við fjölmiðla, að boltinn sé hjá þeim. En nú virðist vera annars vegar þörf á langtímalausn en hins vegar á skammtímalausn fyrir þá sem eru þegar á götunni. Stefnir í einhverjar slíkar aðgerðir til að grípa þau hér og nú?

„Nei, það getum við í sjálfu sér ekki gert,“ sagði Heiða. „Það er ekki á okkar hendi. En þau vita hvaða fólk þetta er. Og vonandi hvar þau eru. Og okkur finnst eðlilegt að þau grípi þann hóp og veiti honum þá þjónustu sem þau telja að hann eigi að fá. Við lítum ekki svo á að þetta sé okkar verkefni. Og ég held að það hafi verið alveg sameiginlegur skilningur á fundinum.“

Hún sagði sveitarfélögin þó geta veitt fólkinu ráð og jafnvel þjónustu, í sérstökum tilfellum, „en það eru þá bara einstaklingar en ekki hópurinn sem slíkur. Það er þessi undantekning sem hefur alltaf verið í lögunum, að það geta verið einhverjir útlendingar í sérstökum aðstæðum. En það þá óháð þessu. Hópurinn er á ábyrgð ríkisins.“

Í augnablikinu virðast félagasasamtök á við Solaris öðrum fremur veita fólkinu stuðning og koma þeim í skjól einhvers staðar. Hefur borgin verið í einhverju samráði við þau eða látið þið þetta bara alveg vera núna?

„Við höfum ekki verið í sambandi við þau, nei. Dómsmálaráðherra sagði í morgun að þetta væru sjö einstaklingar sem hefði verið vísað út og þau virtust vita nokkurn veginn hvar þau væru. Þau eru ekki í þjónustu hjá Reykjavíkurborg.“

Sveitarfélög vísa fólki aftur í Bæjarhraun

Annars staðar hefur verið rætt um tugi, og talan 53 heyrst, yfir þau sem alls hafi horfið frá Bæjarhrauni. En það varðar þá ekki sveitarfélögin á þessu stigi eða hvað?

„Nei, nú erum við náttúrlega ekki með þessar upplýsingar, því þetta er ekki hópur sem við erum að þjónusta, þannig að við vitum í sjálfu sér ekkert um það. En sjö er talan sem kom fram í morgun. Við erum ekki að þjónusta neinn í þessum hóp og ekkert sveitarfélag, mér vitanlega. Enda hefur það ekki verið á okkar hendi og það er ekkert að breytast. Þó útlendingalögin breytist og ríkið ákveði að breyta sínu verklagi, þá breytir það ekki félagsþjónustulögum nema þeim verði breytt. Og þeim hefur ekki verið breytt. Þannig að við vitum í rauninni ekki um það. En komi einstaklingur og óski eftir leiðbeiningum þá er öllum leiðbeint um hvert þeir geta leitað. Og það er þá ríkið, sem þeim er leiðbeint að leita til.“

Þú segir ríkið, hvert beinið þið þá fólki? Hvað þýðir það, til hvaða stofnunar?

„Það er þessi þjónusta þarna, sem að þau sem sjá um þjónustuna við þau segja það að þar sé hurðin áfram opin fyrir þeim.“

Í Bæjarhrauni?

„Þeim er þá vísað þangað. En mér þykir auðvitað kannski að það hefði farið betur á því ef ríkið hefði verið með þetta meira á hreinu áður en þau fóru að beita þessu ákvæði, hvað þau ætla að gera og hvernig þau ætla að þjónusta hópinn. Og ég held að það sé það sem þau munu bara skýra núna.“

Hræðileg staða að vera utan samfélags

Þannig að mannúðarkrísan hefur í sjálfu sér ekki verið leyst, en það er á hendi stjórnvalda að leysa úr henni?

„Já, það er það. En við lögðum áherslu á að – ég held að íslenskt samfélag muni aldrei samþykkja það að hér sé fólk sem lifi á götunni og eigi ekki mat. Við lögðum auðvitað áherslu á það. En þetta er ekki verkefni sveitarfélags, út af fyrir sig. Að þjónusta fólk sem ekki má taka – af því að nú er íslenska ríkið búið að ákveða að þessir einstaklingar megi ekki taka þátt í samfélaginu. Þau megi ekki vinna, þau megi ekki taka þátt, þau eru ekki með kennitölu, þau eru utan samfélags, sem er auðvitað hræðileg staða. Það er ekki hópur sem sveitarfélög hafa sinnt. Sveitarfélögin sinna hins vegar mjög gjarnan, og reyna að gera það vel, öllum sem fá hér stöðu, og eru á fullu í því. En við erum kannski ekki besti aðilinn í hinum. Og þar hefur ríkið sérfræðinga sem við höfum ekki.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí