Eftir að æfa loftbardaga í tvær vikur yfirgefa sex þýskar herþotur nú Ísland

„Schneller Wikinger“ eða „Rapid Viking“ er heitið á æfingu þýska flughersins á Keflavíkurflugvelli sem staðið hefur frá 28. júlí og lýkur í dag, fimmtudaginn 10. ágúst. Sex þýskar herþotur af gerðinni Eurofighter hafa dvalið á landinu eða á sveimi í kringum það í þessar tæpu tvær vikur, ásamt 30 manna áhöfn úr flugherdeild nr. 73, sem nefndn er „Steinhoff“. Þessi æfing var ekki liður í hefðbundinni loftrýmisgæslu, heldur til þess gerð þjálfa og sýna tiltekna viðbragðsmöguleika flughersins.

Vildu sýna hraða viðbragðsgetu

Tvær flutningaþotur af gerðinni A400M fluttu 25 tonn af búnaði og starfsfólki til landsins, kemur fram í umfjöllun DefenseNews. Það er umtalsvert minna en tíðkast við æfingar sem þessar, þar sem flugherinn þyrfti að jafnaði yfir 130 tonn af búnaði til þátttöku. Að undirbúa slíka flutninga getur tekið allt að viku, ásamt þeim þremur dögum sem þarf til að hlaða búnaðinn um borð í flutningavélarnar.

Tilgangurinn með þessari æfingu var enda að sýna hvernig flugherinn gæti komist hingað til lands með litlum fyrirvara, „yfir hljóðhraða“, sagði Ingo Gerhartz, maður með foringjatitil sem virðist óþarft að nefna á tungumáli lands sem kann ekki vel deili á slíkri tignarröðun.

Æfðu bardaga á flugi

Þýsku flugherinn, Luftwaffe, stefnir að því að geta þjónað sem „fyrsti viðbragðsaðili“ sagði í tilkynningu Gerhartz við upphaf æfingarinnar. „Þess vegna erum við að þjálfa snara flutninga með sem minnstri viðhöfn, sérstaklega í þessari sviðsmynd.“

Samkvæmt umfjöllun sem birtist á vef bæjaríska ríkisútvarpsins BR24 fóru þoturnar í átta leiðangra á dag á meðan þær höfðust hér við, og æfðu meðal annars bardaga á flugi, ýmist gegn einum andstæðingi eða tveimur, yfir lengri og skemmri vegalengdir. Þar er einnig vikið orði að hernaðarlegu mikilvægi Íslands vegna birgðaflutninga yfir Atlantshaf, komi til útbreiddra átaka eða annars neyðarástands í löndum Evrópu.

Þýski flugherinn hefur ekki komið hingað til lands síðan hann hafði hér viðdvöl árið 2012, þá við loftrýmisgæslu.

Landhelgisgæslan annaðist móttöku flugsveitarinnar og umsjón með verkefninu fyrir Íslands hönd. Hvorki náðist samband við stjórnstöð gæslunnar í Keflavík né Reykjavík við vinnslu þessarar fréttar.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí