„Schneller Wikinger“ eða „Rapid Viking“ er heitið á æfingu þýska flughersins á Keflavíkurflugvelli sem staðið hefur frá 28. júlí og lýkur í dag, fimmtudaginn 10. ágúst. Sex þýskar herþotur af gerðinni Eurofighter hafa dvalið á landinu eða á sveimi í kringum það í þessar tæpu tvær vikur, ásamt 30 manna áhöfn úr flugherdeild nr. 73, sem nefndn er „Steinhoff“. Þessi æfing var ekki liður í hefðbundinni loftrýmisgæslu, heldur til þess gerð þjálfa og sýna tiltekna viðbragðsmöguleika flughersins.
Vildu sýna hraða viðbragðsgetu
Tvær flutningaþotur af gerðinni A400M fluttu 25 tonn af búnaði og starfsfólki til landsins, kemur fram í umfjöllun DefenseNews. Það er umtalsvert minna en tíðkast við æfingar sem þessar, þar sem flugherinn þyrfti að jafnaði yfir 130 tonn af búnaði til þátttöku. Að undirbúa slíka flutninga getur tekið allt að viku, ásamt þeim þremur dögum sem þarf til að hlaða búnaðinn um borð í flutningavélarnar.
Tilgangurinn með þessari æfingu var enda að sýna hvernig flugherinn gæti komist hingað til lands með litlum fyrirvara, „yfir hljóðhraða“, sagði Ingo Gerhartz, maður með foringjatitil sem virðist óþarft að nefna á tungumáli lands sem kann ekki vel deili á slíkri tignarröðun.
Æfðu bardaga á flugi
Þýsku flugherinn, Luftwaffe, stefnir að því að geta þjónað sem „fyrsti viðbragðsaðili“ sagði í tilkynningu Gerhartz við upphaf æfingarinnar. „Þess vegna erum við að þjálfa snara flutninga með sem minnstri viðhöfn, sérstaklega í þessari sviðsmynd.“
Samkvæmt umfjöllun sem birtist á vef bæjaríska ríkisútvarpsins BR24 fóru þoturnar í átta leiðangra á dag á meðan þær höfðust hér við, og æfðu meðal annars bardaga á flugi, ýmist gegn einum andstæðingi eða tveimur, yfir lengri og skemmri vegalengdir. Þar er einnig vikið orði að hernaðarlegu mikilvægi Íslands vegna birgðaflutninga yfir Atlantshaf, komi til útbreiddra átaka eða annars neyðarástands í löndum Evrópu.
Þýski flugherinn hefur ekki komið hingað til lands síðan hann hafði hér viðdvöl árið 2012, þá við loftrýmisgæslu.
Landhelgisgæslan annaðist móttöku flugsveitarinnar og umsjón með verkefninu fyrir Íslands hönd. Hvorki náðist samband við stjórnstöð gæslunnar í Keflavík né Reykjavík við vinnslu þessarar fréttar.