Þúsundir í ótryggu atvinnuhúsnæði og fjölgar enn, segir slökkviliðsstjóri

Slökkviliðsstjóri segir að gera megi ráð fyrir að þúsundir búi nú við ótryggar aðstæður í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Viðbragð stjórnvalda við ástandinu undanliðin þrjú ár hefur skilað samráðsvettvangi, starfshópum, skýrslum og öðrum áföngum í átt að aðgerðum, en engum áþreifanlegum aðgerðum enn sem komið er.

Innviðaráðherra skipaði tvo starfshópa

Ekkert manntjón varð þegar eldur kviknaði í húsnæði við Hvaleyrarbraut í Hafnarfirði í gær, sunnudag, en byggingin brann til kaldra kola. Á neðri hæð hennar var iðnaðarstarfsemi en efri hæð hússins, eða húsanna, var nýtt til íbúðar. Þrjú ár eru liðin frá brunanum við Bræðraborgarstíg, sem varð þremur að bana. Í kjölfar brunans hófu yfirvöld að bregðast við aðstæðum þess mikla fjölda sem nú býr í ótryggu húsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Og í sumar skilaði starfshópur á vegum Innviðaráðuneytisins skýrslunni „Búseta í atvinnuhúsnæði“.

„Já, innviðaráðherra skipaði tvo starfshópa,“ segir Birgir Finnson slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins, í samtali um efnið. „Eða í byrjun var skipaður einn samráðsvettvangur, eins og það var kallað, um brunavarnir í íbúðum. Það er skýrsla sem var gefin út í kjölfarið á brunanum á Bræðraborgarstíg. Og út frá þeirri skýrslu voru settir tveir starfshópar, sem vinna sín mál. Fulltrúar okkar sátu í þeim. Þeir skiluðu af sér nú á vormánuðum.“

Birgir segir tillögurnar sem þetta ferli hefur skilað stjórnvöldum einkum snúast um að fólki verði gert kleift að skrá sig í búsetu í atvinnuhúsnæði, sem verði þá hægt að binda við ákveðin skilyrði. Í augnablikinu hafi slökkvilið heimildir til að skoða atvinnuhúsnæði. „En aftur á móti er ekkert sem heimilar okkur eða öðrum að segja: heyrðu, fólk má búa hérna. Sem er auðvitað ákaflega einkennileg staða. Þannig að starfshóparnir leggja það til að búseta í atvinnuhúsnæði sé heimil á ákveðnum forsendum. Og þá að fólk skrái sig þar til heimilis.“

Húsnæðið við Hvaleyrarbraut, sem varð eldi að brað sunnudaginn 20. ágúst 2023.

Einhvers staðar þarf fólk að búa

Hugmyndin er þó enn ekki komin til framkvæmda. Það er óhætt að segja í augnablikinu að það megi gera ráð fyrir að í augnablikinu búi þúsundir við þetta ótryggar aðstæður?

„Ég held að það sé,“ segir Birgir. „Í skýrslunni segir það það séu tvö þúsund og þó svo að þetta hafi verið mjög ítarleg vinna þá er ekki ólíklegt að eitthvað hafi ekki fundist eða sé ekki með í skýrslunni. Í ofanálag er þensla, fólk er að leita sér að húsnæði og fleiri að koma hingað til lands sem eru að leita sér að vinnu. Einhvers staðar þarf þetta fólk að búa. Það má gera ráð fyrir að það hafi frekar fjölgað frá þessari skýrslu, já.“

Ég er með mynd fyrir framan mig af húsnæðinu í Hafnarfirði. Einhver hafði á orði að þetta væri eins og á 19. öld Dickens, hvernig þarna er byggt og þessu klambrað saman. Er þetta einsdæmi eða er búið í húsnæði í þessu ástandi víða?

„Af því sem við erum að skoða, þá er margt mjög gott líka. Það má ekki gera lítið úr því að eigendur hafa sums staðar tekið sig til og breytt, að það sé ekki bæði íbúðarhúsnæði og önnur starfsemi til að hafa eins miklar áhyggjur af. En auðvitað eru víða timburhús á höfuðborgarsvæðinu sem eru byggð bara á sínum tíma, samkvæmt lögum og reglum sem giltu þá. En svona í grunninn held ég að þetta séu ansi margar húseiningar sem þarna eru saman. Þarna var fólk heima við þegar bruninn kemur upp. Ekkert viðvörunarkerfi fór í gang. Nágrannar sýndu snarræði í að vekja fólkið og koma því út.“

Mildi að ekki fór verr?

„Já, má segja það. Eitt er að allir hafi bjargast. Það er auðvitað aðalatriðið. Síðan húsnæðið. En líka það að þarna var mikið af fornmunum og fornbílum, miklar eignir og tilfinningalegt tjón er mikið. En náðist samt að bjarga töluverðu, sem við lögðum áherslu á þegar við áttuðum okkur á umfanginu, að það væru allar líkur á að þetta myndi breiðast meira út, þá fórum við meira í það að aðstoða eigendur við að koma þessum verðmætum út.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí