Slökkvilið á Tenerife virðist í þann mund að ná tökum á gróðureldunum sem hafa geisað þar undanliðna viku og náð til um sjö prósenta af öllu landsvæði eyjunnar. Hitabylgja á svæðinu hefur gert erfiðara að eiga við eldinn en ella. Því fer fjarri að eldarnir hafi verið slökktir en yfirvöld segja að þeir séu nú nærri því viðráðanlegir. Ekkert manntjón hefur orðið svo vitað sé. Stjórnvöld hafa tilkynnt að landsvæðið sem hefur orðið brunanum að bráð verður skilgreint sem hamfarasvæði.
Þó bar það til tíðinda á eynni í gær, þriðjudag, að áttræður bóndi „sem vildi meina að þyrluflugmaður væri að stela vatni frá sér, kastaði grjóti að þyrlunni sem var að sækja vatn til að nota á skógareldana, hitti í stýrisbúnaðinn með þeim afleiðingum að hún varð að nauðlenda og er úr leik að sinni, en sem betur fer án líkamlegs skaða“. Hér er haft eftir Önnu Kristjánsdóttur, sem býr á Tenerife og greinir frá atvikinu í dagbók sinni á Facebook, en um það má einnig lesa í fréttaveitu Reuters. Maðurinn hefur verið handtekinn, kemur fram í báðum heimildum, og „á það á hættu að verða ákærður fyrir manndrápstilraun“ að sögn Önnu sem bætir við að vonandi fái hann að gista „í dýpstu dýflissu sem hægt er að finna á Tenerife“.